Enn á ný mun Leikfélag Selfoss takast á Hugarflug en það er orðinn fastur liður í starfi félagsins. Hugarflug er eins konar grasrótarstarf leikfélagsins en þar fá leikfélagsmeðlimir og aðrir frjálsar hendur til að vinna stutt verk, ljóð eða tónlist eftir eigin nefi sem sett er saman í eina sýningu og sýnd í takmörkuðu upplagi. Hugarflugið hefur vakið mikla lukku og aðsókn verið sívaxandi.

Að þessu sinni verða sýnd 3 stutt leikverk þar sem koma við sögu misheyrandi starfsmenn og gamalmenni, huglaus hetja, starandi hjúkka og brjáluð draumadís. M.a. verður sýnt verkið Góðar stundir sem fór góða ferð á stuttverkahátíðina Margt smátt síðustu helgi og fékk góðar viðtökur en verkið er frumsamið af félagsmanni leikfélagsins. Auk þess verður boðið upp á lifandi tónlist, kvæðalestur og aldrei að vita nema meira grín og glens slæðist inn á milli. Þátttakendur eru í kringum 15, sumir reyndir en aðrir eru lítt eða jafnvel óslípaðir demantar framtíðarinnar í leiklistinni.

Sýndar verða 2 sýningar á sunnudeginum 18 október kl. 14:00 og aftur kl. 17:00 í Litla leikhúsinu við Sigtún. Aðgangseyrir er aðeins 500 kr. Miðar eru seldir á staðnum. Hugarflug er því tilvalin skemmtun til að brosa, hlæja og jafnvel gráta af gleði á þessum síðustu og verstu tímum.

Framundan er svo spennandi leiklistarnámskeið helgina 24.-25. Október í leikhúsinu. Minnum líka á laugardagskaffið þar sem gestum og gangandi er boðið í kaffi og spjall  alla laugardaga kl. 11:00-13:00 (fellur niður næstu helgi vegna Hugarflugs). Það er því ekki hægt að segja annað en leikhúsið dansi og iði af lífi þessa dagana. Fólk er hvatt til að kynna sér þessa viðburði nánar á www.leikfelagselfoss.is eða í netfanginu leikfelagselfoss@gmail.com þar sem einnig er hægt að skrá sig á félagapóst leikfélagsins og fá sendar ýmsar tilkynningar um starfið og viðburði.

{mos_fb_discuss:2}