Föstudaginn 30. október verður Fjölskyldan eftir bandaríska leikskáldið Tracy Letts frumsýnt á stóra sviði Borgarleikhússins. Leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason, þýðandi Sigurður Hróarsson og tónlist fyrir sýninguna samdi KK. Fjölskyldan hlaut þrenn eftirsóttustu leiklistarverðlaun Bandaríkjamanna: Drama Desk, Pulitzer og loks Tony-verðlaunin sem besta leikrit ársins 2008.

Ættfaðirinn hverfur sporlaust og fjölskyldan safnast saman á óðalinu. Smám saman tekur hvarfið á sig skýrari mynd en um leið leita gömul leyndarmál og heitar ástríður upp á yfirborðið. Fjölskyldumeðlimir hafa hver sinn djöful að draga og við svo eldfimar aðstæður tekur atburðarásin óvænta stefnu.
Safarík og stórbrotin fjölskyldusaga sem gagnrýnendur hafa kallað fyrstu klassík 21. aldarinnar. Sýning sem minnir í senn á dramatísk leikverk Tennessee Williams og kaldhæðni Woody Allen. Tónlist KK fullkomnar leikhúsveisluna.

Tracy Letts (1965) er eitt fremsta leikskáld Bandaríkjanna nú um stundir. Hann starfar við hið víðfræga Steppenwolf-leikhús í Chicago sem leikskáld, leikstjóri og leikari. Fyrsta leikrit hans, Killer Joe, var sýnt hér í Borgarleikhúsinu. Fjölskyldan – ágúst í Osagesýslu hlaut þrenn eftirsóttustu leiklistarviðurkenningar Bandaríkjamanna: Drama Desk, Pulitzer og loks Tony-verðlaunin sem besta leikrit ársins 2008. Leikritið hefur verið sýnt óslitið á Broadway frá frumsýningu og fjöldi fremstu leikhúsa heimsins hefur tekið það til sýninga.

Búninga gerir Margrét Einarsdóttir og lýsing er í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar. Leikarar í sýningunni eru Sigrún Edda Björnsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Pétur Einarsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Theodór Júlíusson, Hallgrímur Ólafsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Ellert A. Ingimundarson og Rúnar Freyr Gíslason.

{mos_fb_discuss:2}