Föstudaginn 29. maí frumsýnir Leikfélag Patreksfjarðar leikritið Ástir í meinum, fjársjóður í leynum – eða nauðsynleg genablöndun? Patreksfirskt ævintýri, í leikstjórn höfundar verksins, Dóru Jóhannsdóttur. Önnur sýning verður á laugardaginn 30. maí. Verkið er byggt á sögum sem Sjóræningjahúsið á Patreksfirði notar í sinni sýningu og fjallar um komu sjóræningja til Patreksfjarðar og samskipti þeirra við íslenskt alþýðufólk þeirra tíma en eins og gefur að skilja getur það ekki gengið fullkomlega hnökralaust fyrir sig.

Hvítasunnuhelgin er mikil gleðihelgi á Patreksfirði en þá eru fermingar og hin stórskemmtilega og metnaðarfulla heimildamyndahátið, Skjaldborg. Þessa helgi iðar þorpið af lífi og margt er gert sér til skemmtunar. Þar sem Skjaldborg er haldin í samnefndu leik- og kvikmyndahúsi Patreksfjarðar varð leikhópurinn að finna annað húsnæði undir sýninguna. Réttin í slátúrhúsinu varð fyrir valinu og hefur þar verið sett upp leikhús sem á eftir að koma gestum á óvart. Sviðsmyndin er hönnuð og smíðuð af leikhópnum og eins er tónlistin frumsamin og flutt af heimafólki. Hið sama á við um búningana. Mikill metnaður hefur verið lagður í sýninguna og eru leikarar og aðrir þátttakendur í sýningunni af öllum aldri.

Höfundur verksins og leikstjóri, Dóra Jóhannsdóttir leikkona, útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2006. Síðan þá hefur hún leikið Þjóðleikhúsinu og með leikhópunum Vér Morðingjar og Ég og vinir mínir, sem hún stofnaði ásamt öðrum. Hún hefur líka leikið í hinum ýmsu auglýsingum, sjónvarpsþáttum og bíómyndum og mun leika í Borgarleikhúsinu á næsta leikári. Dóra ætti að vera flestum að góðu kunn en hún er einn af meðhöfundum og leikurum í sýningunni Humanimal sem sýnd er í Hafnarfjarðarleikúsinu og hefur hlotið frábæra dóma.

Leikfélag Patreksfjarðar (LP) var stofnað þann 13. maí árið 1967 og hefur á þeim tíma sett upp leiksýningar, staðið fyrir uppákomum og skemmtunum og verið órjúfanlegur hluti af menningarstarfsemi Patreksfjarðar.

{mos_fb_discuss:2}