Æfingar eru nú í fullum gangi hjá Leikfélagi Hofsóss á bandaríska gamanleiknum Blúndur og blásýra eftir Joseph Kesselring í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar. Sýnt verður í félagsheimilinu Höfðaborg og verður frumsýning þann 4. apríl. Alls taka 11 leikendur þátt í sýningunni og leikstjóri er Ármann Guðmundsson.

Leikritið fjallar um leiklistargagnrýnanda sem kemst að því sér til mikillar skelfingar tvær eldri frænkur hans hafa stundað það af góðmennsku sinni að eitra fyrir einmanna eldri mönnum og jarða þá síðan í kjallaranum hjá sér. Til að flækja málin er hann nýbúinn að biðja unnustu sinnar þegar hann kemst að þessu auk þess sem sérdeilis illa innrættur bróðir hans stingur upp kollinum ásamt vafasömum lýtalækni þegar síst skyldi. Já og svo er hálft lögreglulið Brooklyn-hverfis heimagangar hjá þeim gömlu.