Í Þjóðleikhúsinu leggjum við okkur fram um að laða að leiklistinni og leikhúsinu fólk á ólíkum aldri með ólík áhugasvið og því er framboð og úrval sýninga fjölbreytt. Við bjóðum upp á hvorki fleiri né færri en tíu mismunandi barnasýningar í vetur, og opnum meðal annars nýtt svið sérstaklega fyrir brúðusýningar á Brúðuloftinu. Og það sem við erum einna stoltust af er að yfir helmingur verka á verkefnaskrá leikhússins er ný og eldri íslensk sviðsverk, en við leggjum mikla áherslu á að leggja rækt við innlenda leikritun. Til að mynda verða fyrstu frumsýningar á öllum sviðum, á Stóra sviðinu, í Kassanum, í Kúlunnni og á Brúðuloftinu, frumflutningur á nýjum íslenskum verkum.

Við hefjum leikinn á leikriti ársins 2013, Englum alheimsins. Sviðsetning Þorleifs Arnar Arnarssonar, byggð á meistaraverki Einars Más Guðmundssonar, sló rækilega í gegn á síðasta leikári. Sýningin hlaut einróma lof gagnrýnenda, níu tilnefningar til Grímuverðlaunanna og þrjár Grímur. Englarnir eru sýning sem snertir, hreyfir við og vekur til umhugsunar, borin uppi af snilldarleik Atla Rafns Sigurðarsonar.

Fyrsta frumsýning á Stóra sviðinu er nýtt verk Braga Ólafssonar; Maður að mínu skapi. Þetta er meinfyndið verk um uppblásna oflátunga, liðtæka lærisveina, hatursfulla undirmálsmenn og sakleysingja sem eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Nútíma stofudrama rammað inn í hreinan farsa. Maður að mínu skapi er þriðja heilskvölds leikrit Braga fyrir leiksvið og í öllum verkum hans hefur Eggert Þorleifsson farið með aðalhlutverkið. Síðast voru Hænuungarnir á fjölunum hér í Kassanum og fékk sýningin afbragðsviðtökur og fjölda verðlauna, en verkið var meðal annars tilnefnt til leikskáldaverðlauna Norðurlandanna.

harmsaga_posterFyrsta frumsýningin í Kassanum er Harmsaga eftir Mikael Torfason, en þetta er frumraun Mikaels í Þjóðleikhúsinu. Verkið er tragísk ástarsaga; sótt beint í íslenskan samtíma um ung hjón sem rata í öngstræti í hjónabandi sínu. Ástin sem einu sinni var, snýst upp í andhverfu sína og verður að helvíti og helsi með hörmulegum afleiðingum. Verkið afhjúpar af vægðarleysi ástir þeirra og sorgir, svikin loforð og brostna drauma. Tónlistarmaðurinn John Grant semur tónlist fyrir verkið og er það í fyrsta sinn sem hann tekur slíkt að sér.

Í Kúlunni verður nýtt íslenskt barnaleikrit eftir Sölku Guðmundsdóttur frumsýnt í byrjun september í samstarfi við leikhópinn Soðið svið, en Salka er svo sannalega ein af vonarstjörnunum í íslenskri leikritun. Reglulegar brúðusýningar bætast við fjölbreytta flóru barnasýninga þegar Bernd Ogrodnik frumsýnir nýja sýningu, Aladdín, á Brúðuloftinu, en brúðuleikhús Bernds, Brúðuheimar, hefur nú fengið fast aðsetur þar.

ovitar_posterÁ Stóra sviðinu frumsýnir Þjóðleikhúsið í október Óvita Guðrúnar Helgadóttur, en Guðrún skrifaði þetta snjalla barnaleikrit og skörpu þjóðfélagsádeilu um litla og stóra óvita sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið á sínum tíma. Þetta er í þriðja sinn sem verkið er tekið til sýninga í Þjóðleikhúsinu og nú með nýrri tónlist og  söngtextum eftir hljómsveitarmeðlimina í Moses Hightower.

Eftir áramót verður nýtt íslenskt verk, Svanir skilja ekki, eftir Auði Övu Ólafsdóttur frumsýnt í Kassanum, en Auður sló í gegn með frumraun sinni í Þjóðleikhúsinu; Svartur hundur prestsins fyrir tveim árum. Hér er Auður að skoða undarlegt eðli hjónabandsins og þá leyndu þræði sem þar eru spunnir. Verkið er línudans á mörkum hins harmræna og kómíska, en það fjallar um hjón sem leita til sálfræðings vegna unglingssonar sem þau ná engu sambandi við lengur. Hann hefur breyst svo mikið síðan hann var fimm ára. Sálfræðingurinn stingur upp á óhefðbundinni meðferð.

Tvö eldri íslensk verk verða sviðsett á leikárinu. Fyrra verkið, Sveinsstykki Þorvaldar Þorsteinssonar verður á Stóra sviðinu í nóvember, en Þorvaldur skrifaði þennan einleik sérstaklega fyrir Arnar Jónsson í tilefni af sextugsafmæli hans fyrir um tíu árum. Sýningin er samstarfsverkefni við Hið lifandi leikhús, sviðsett til að heiðra minningu Þorvaldar, sem lést langt fyrir aldur fram á árinu, en einnig til að fagna sjötugsafmæli Arnars Jónssonar.
Í Kassanum verður verkið Lúkas eftir Guðmund Steinsson sviðsett í samstarfi við leikhópinn Aldrei óstelandi, en Guðmundur var eitt fremsta leikskáld síðustu
aldar og flest verka hans voru frumflutt í Þjóðleikhúsinu. En dagskráin verður ekki síður hlaðin spennandi nýjum og gömlum erlendum leikverkum.

Þingkonurnar eftir Aristófanes verður jólasýningin á Stóra sviðinu en þessi 2400 ára gamli gleðileikur verður nú tekinn til kostanna af Benedikt Erlingssyni leikstjóra. Lýðræðið með öllum sínum kostum og göllum er viðfangsefni höfundar, en í verkinu gera konur lævísa byltingu og taka völdin með það að markmiði að koma á algeru jafnræði og jafnri skiptingu gæðanna. – En lýðræðið er í raun afar flókið í framkvæmd, það ráku menn sig á fyrir margt löngu og það erum við enn að glíma við. Konur fara með öll helstu hlutverk og heil kvennahljómsveit verður á sviðinu.

spamalot_posterEftir áramót verður söngleikurinn SPAMALOT úr smiðju Monthy Python á fjölunum, þar sem riddarar ríða ímynduðum hestum í leit að ímynduðum konungsríkjum og frjálslega er farið með hetjuímyndir og valdabrölt, eða vinsældarbrölt  á öllum tímum. Hin goðsagnakennda frásögn af Arthúri konungi og riddurum hringborðsins, birtast hér í glænýjum búningi, þar sem hinar myrku miðaldir og veröld söngleikjanna renna saman á undurfurðulegan og sprenghlægilegan hátt.

Um miðjan apríl frumsýnum leikhúsið síðan eitt magnaðasta verk bandarískra leikhúsbókmennta; The Crucible sem hefur í nýrri þýðingu hlotið nafnið Eldraunin. Þetta er tímalaust meistaraverk og að margra mati best skrifaða leikrit síðustu aldar. Verkið lýsir samfélagi á valdi ofstækis, vænisýki og múgsefjunar, og baráttu eins manns í þágu sannleikans.

Í Kassanum verður Pollock?, glænýtt þrælfyndið verk sem sýnt hefur verið við miklar vinsældir víðs vegar um Bandaríkin. Verkið er byggt á sannsögulegum atburðum og fjallar um konu sem kaupir forljótt málverk á skransölu til að gera vinkonu sinni grikk, en fær vísbendingu um að hér gæti hún hafa dottið í lukkupottinn og þetta sé að öllum líkindum listaverkafundur aldarinnar!

eldraunin_posterStarfsemi Leikhúskjallarans verður blómleg og þar verður boðið upp á uppistand, gestaleiki og tilraunaverkefni. Auk þess sem fjögur frumsamin dansverk verða  frumflutt á minni sviðunum í samstarfi við sjálfstæða sviðstlistahópa. Fjórir ungir leikarar bætast í leikhópinn í vetur, þau Oddur Júlíusson, Þorleifur Einarsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir og Salóme Rannveig Gunnarsdóttir, en þau útskrifuðust öll úr Listaháskólanum í vor. Það er afar sjaldgæft að svo margir útskriftarnemar séu ráðnir í einu til leikhússins, og er það mikil tilhlökkun að fá þetta unga og kraftmikla fólk til liðs við leikhúsið. Leikararnir ungu munu taka þátt í ýmsum sýningum á leikárinu, og hljóta sannkallaða eldskírn í leiklistinni.

Leikstjórinn Stefan Metz sem leikstýrir Eldrauninni kemur nú aftur til liðs við Þjóðleikhúsið, en hann vann hér einstaklega eftirminnilega sýningu á Krítarhringnum í Kákasus fyrir um áratug og gott betur. Einstakur listamaður sem mikill fengur er að fá til aftur liðs við leikhúsið og þann öflugan hóp listamanna sem þar starfar. Við í Þjóðleikhúsinu hlökkum til að taka á móti gestum leikhússins í vetur og óskum þeim öllum góðra og gjöfulla stunda.