Þá er nýtt leikár að hefjast hjá Stoppleikhópnum og óhætt að fullyrða að sjaldan eða aldrei hafi dagskráin verið eins fjölbreytt en leikhópurinn mun í vetur sýna 6 íslensk verk ætluð börnum og unglingum. Þar af frumsýnir leikhópurinn 3 ný verk, 2 fyrir unglinga og eitt fyrir börn. Allar sýningarnar eru farandsýningar sem unnt er að koma með í skóla.

Um þessar mundir standa æfingar yfir á nýjasta verkinu en það er „Ungi maðurinn“ eftir Þorvald Þorsteinsson.

Verkið fjallar um leikarahjón sem virðast hafa lokast inni í eigin leikhúsi. Eiginmaðurinn hefur ekki lengur áhuga á að leika en er því áhugasamari um alls kyns leikmuni og búninga. Frúin, sem jafnframt er leikskáldið og leikstjórinn í þeirra lífi, getur ómögulega gert upp við sig í hvaða hlutverki hún njóti sín best – og í hvaða búningi. Þegar ungur ljósmyndari birtist í þeim tilgangi að mynda frúna fyrir tímaritsviðtal fara hinir undarlegustu hlutir að koma í ljós, enda alls ekki á hreinu á hvers vegum hann er í raun og veru. Og mikilvægar spurningar byrja að skjóta upp kollinum: Hver er ekta og hver skáldaður í þessu verki? Hver er skrifaður af hverjum – svona yfirleitt? Hvað verður um persónuna þegar leikritinu lýkur? Erum við kannski að taka þátt í fleiri leikritum en við kærum okkur um?
Verkið er ætlað elstu bekkjum grunnskólans og yngstu bekkjum framhaldsskólans en sýningin mun nýtast vel í lífsleiknikennslu og til uppbyggilegrar umræðu innan skólans.

Leikstjóri er Sigrún Sól Ólafsdóttir.

Leikarar eru: Katrín Þorkelsdóttir, Magnús Guðmundsson og Sigurður Eyberg Jóhannesson.
Leikmynd og búninga gerir Þorvaldur Þorsteinsson sem jafnframt er höfundur verksins. Frumsýning er áætluð í lok september 2007.

Leikverk ætluð unglingum veturinn 2007-2008:

Bólu-Hjálmar.
Höfundar verks og tónlistar: Ármann Guðmundsson, Snæbjörn Ragnarsson, Sævar Sigurgeirsson
og Þorgeir Tryggvason.
Stutt lýsing á verki: Hjálmar Jónsson var kotbóndi á Norðurlandi á fyrri hluta nítjándu aldar. Fátækur og smáður þurfti hann að þola yfirgang betur settra bænda, fyrirlitningu sveitunga sinna og linnulitlar dylgjur um óheiðarleika og þjófnað. Enda bjó hann yfir vopni sem allir óttuðust.  Leikverk fyrir ungt fólk um ógnir óréttlætisins, afl orðsins og töframátt skáldskaparins.
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir.
Leikmynd og búningar: Guðrún Öyahals.
Ferðasýning fyrir grunn/framhaldsskóla.Sýningartímabil: Frumsýnt í mars 2008.

Hrafnkelssaga Freysgoða.
Höfundur leikgerðar: Valgeir Skagfjörð.
Stutt lýsing á verki: Hrafnkelssaga Freysgoða eða Hrafnkatla er í hópi þekktustu Íslendingasagna. Þar segir frá því þegar Hrafnkell Freysgoði drepur Einar Þorbjarnarson smalamann fyrir þá sök að ríða hestinum Freyfaxa í leyfisleysi. Í kjölfarið stefnir Sámur Bjarnason Hrafnkeli fyrir vígið og dregur það mál mikinn dilk á eftir sér.
Ferðasýning fyrir 11-20 ára.
Sýningartímabil: Sýnt veturinn 2007-2008.

Leikverk ætluð börnum veturinn 2007-2008:

Eldfærin.
Höfundur: H.C.Andersen.
Leikgerð: Margrét Kaaber.
Stutt lýsing á verki: Ævintýraeinleikur byggður á einni þekktustu sögu skáldsins. Ævintýrið segir frá dáta nokkrum sem hittir norn á förnum vegi, hún biður hann að sækja eldfærin sín niður í tré þar rétt hjá en því fylgir að hann þarf að hitta þrjá stóra hunda sem sitja á peningakistum. Dátinn samþykkir þetta…….og fer síðan af stað skemmtileg og spennandi atburðarás sem allir þekkja. Leiksýningin er blanda af skuggaleikhúsi, söng, leik og fiðluleik.
Leikstjóri: Margrét Kaaber.
Leikmynd og búningar: Leikhópurinn.
Leikari: Eggert Kaaber.
Ferðasýning fyrir 1- 9 ára.
Sýningartímabil: Frumsýnt í haust.

Jólin hennar Jóru.
Höfundur: Eggert Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir.
Stutt lýsing á verki: Glænýtt jólaævintýri unnið undir áhrifum frá þjóðsögunum.
Leikritið segir frá Jóru en hún er tröllastelpa sem býr upp í fjöllum. Einn daginn stelur hún jólakíkinum hans Skrepps en hann er einn helsti aðstoðarmaður jólasveinanna. Allt er í pati á jólasveinaheimilinu því án kíkisins góða geta þeir ekki vitað hvort börnin séu þæg og góð til að fá í skóinn. Er Skreppur sendur af stað til að hafa upp á kíkinum en það verður ekki auðvelt því Jóra er farin til mannabyggða að upplifa þessi jól sem allir eru að tala um.
Leikstjóri: Sigurþór Albert Heimisson.
Leikmynd og búningar: Leikhópurinn.
Leikarar: Eggert Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir.
Ferðasýning fyrir 1-9 ára.
Sýningartímabil: Sýnt frá 23 nóvember 2007.

Þrymskviða og Iðunnareplin.
Höfundur leikgerðar: Eggert Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir.
Stutt lýsing á verki: Ný leikgerð byggð á ofangreindum sögum þar sem barátta Ása og jötna er höfð að leiðarljósi. Þar fer Loki Laufeyjarson fremstur í flokki ásamt Ása-þór, Iðunni, Heimdalli, Freyju og Þrymi konungi hrímþursa. Leikverkið er litrík ævintýraferð um heim norrænnar goðafræði en markmiðið er að kynna fyrir börnum helstu sögupersónur goðafræðinnar ásamt þekktustu sögubrotum hennar.
Ferðasýning fyrir 6-12 ára.
Sýningartímabil: Sýnt veturinn 2007- 2008

Nánari upplýsingar um sýningar, leikárið og leikhópinn: www.stoppleikhopurinn.com