Það eru sumir sem halda því fram að það sé sjálfsagður réttur hverrar kynslóðar barna að sjá ákveðin barnaleikrit. Þetta ár hlýtur því að vera afar mikilvægt í réttindabaráttu yngstu kynslóðar Reykvíkinga því tvö þessarra mikilvægu verka eru nú sýnd í stóru leikhúsunum. Gagnrýnandi Leiklistarvefsins skellti sér á annað þeirra, nánar tiltekið Línu langsokk í Borgarleikhúsinu.
Kraftmikil Lína í Borgarleikhúsinu

Fyrsta frumsýning leikársins hjá Leikfélagi Reykjavíkur var barnaleikritið góðkunna, Lína langsokkur eftir sænska barnabókasnillinginn Astrid Lindgren. Það er María Reyndal sem leikstýrir og þreytir þar með frumraun sína í Borgarleikhúsinu en hún hefur áður getið sér gott orð sem leikstjóri með Beyglum í Iðnó og Karíusi og Baktusi í Þjóðleikhúsinu.

Lína langsokkur er greinilega að verða svar LR við reglulegum sýningum Þjóðleikhússins á verkum Torbjörns Egner. Undirritaður sá einmitt sýningu á Línu á sama sviði fyrir ca. áratug og fannst satt að segja uppsetningin takast ólíkt betur í þetta skiptið en þá því á þeirri sýningu hálfpartinn leiddist honum. Það sem einkennir þessa sýningu kannski mest eru krafturinn og leikgleðin sem geisla af leikhópnum. Alltof oft hefur maður haft það á tilfinningunni á barnasýningum á stóru sviðum beggja leikhúsa að leikararnir séu þarna af hálfum hug (þar er mögulega við stærð salanna að einhverju leiti að sakast) en því var sko ekki fyrir að fara á þessari sýningu. Með Ilmi Kristjánsdóttur sem Línu í broddi fylkingar var keyrt af fullum krafti, stundum næstum helst til miklum.

Sýningin er líka býsna fyndin og aldrei sleppt úr tækifæri til að skemmta áhorfendum. Sviðsmyndin er vel útfærð, Sjónarhóll í heild sinni á sviðinu, er í raun einskonar klifurgrind og afar skemmtilega nýttur, t.d. þegar löggurnar ætla að handataka Línu fyrir það eitt að vera munaðarlaus. Ég veit ekki hvort einhver pæling var á bak við stóra sófann heima hjá Önnu og Tomma önnur en sú að hann var hlægilega stór en það var hann alla vega. Leikritið sjálft er auðvitað bara “best of” úr bókunum um Línu, skemmtilegar sögur en ekki beinlínis mikil krónólógísk framvinda, Lína birtist í bænum, skandalíserar nokkrum sinnum, fer aftur og allir verða sorgmæddir (vill ekki segja of mikið um endinn!). En það gerir svo sem ekkert til þar sem uppátæki Línu eru svo skemmtileg.

Sýningin stendur auðvitað og fellur með túlkuninni á Línu og Ilmur Kristjánsdóttir er Lína holdi klædd, lítill, ofvirkur orkubolti sem flengist stanslaust um sviðið og lætur sér aldrei bregða, sama við hvern eða hvað hún á við að etja. Manni dettur í hug að ákvörðunin um að setja Línu upp nú í ár hafi jafnvel verið tekin vegna þess að einhver glöggur sem um það hafði að segja, kom auga á að þarna væri hin algjöra Lína nýútskrifuð úr LHÍ og þyrfti að komast á svið.

Aðrir leikarar standa sig líka með prýði, Edda Björg Eyjólfsdóttir sem Anna og Bergur Þór Ingólfsson sem Tommi eru trúverðug fyrirmyndarbörn sem allt í einu er svipt inn í heim stjórnleysis og óreglu og geta ekki hugsað sér að snúa til baka í skipulagðan hversdagsleikann. Eða þannig. Apastýrið Níels var leikið af aðdáunnarverðri innlifun af annarri af tveimur Vökunni sem skipta með sér hlutverkinu og Hr. Hestur er óvenju líflegur og tekur afar virkan þátt í dansatriðum sem eru almennt mjög skemmtilega útfærð.

Móralski meirihlutinn er í öruggum höndum nokkurra reyndustu leikara LR, Sigrún Edda Björnsdóttir og Hanna María Karlsdóttir fara létt með að rúlla upp barnaverndarfulltrúanum og kennslukonnunni og eru á tíðum óborganlega fyndnar, t.d. í teboðinu. Dans kennslukonunar var líka bara yndislegur. Þór Tulinius og Guðmundur Ólafsson leika löggurnar í kannski fullmiklum GeirogGrana-stíl en eiga nokkra fína spretti. Þjófarnir treggáfuðu eru leiknir af Gunnari Hanssyni og Halldóri Gylfasyni og verða í túlkun þeirra allt að því brjóstumkennanlegir, það lá við að maður óskaði þess að þeir kæmust undan með gullpeningana, þeir virtust svo miklu meira þurfa á þeim að halda en Lína. Önnur hlutverk voru prýðilega af hendi leyst en buðu svo sem ekki upp á neina snilldartakta.

Ef tína á til eitthvað til að fetta fingur útí má nefna skrítna byrjun sem ekki var gott að átta sig hvað átti að fyrirstilla og flatneskjulegan tónlistarflutning sem kom talsvert á óvart því að maður átti á betru von frá þeim Geirfulgsmönnum. Tónlistin sjálf er svo sem ekki merkileg en það hefði gjarnan mátt glæða hana meira lífi og kannski aðeins minni hávaða á köflum. En þetta eru smámunir, í heildina er sýningin hin besta skemmtun fyrir aldna sem unga og um að gera að skella sér í Borgarleikhúsið og sjá Línu langsokk. Það er jú hvort sem er siðferðileg skylda gagnvart börnunum.

Ármann Guðmundsson