Kómedíuleikhúsið á Ísafirði er væntanlegt til borgarinnar með nýjustu kómedíu sína í farteskinu. Um er að ræða afar kómískan gamanleik er nefnist Vestfirskur skáldskapur á 57. mín og Vestfirsk tónlist á 27. mín. Gamanleikurinn verður sýndur í Slippsalnum í Reykjavík fimmtudaginn 3. mars og föstudaginn 4. mars báðar sýningarnar hefjast kl.20. Miðasala á sýningarnar er þegar hafin í síma 450 5565.

Leikurinn hefur verið sýndur frá því í byrjun febrúar við feikna vinsældir í Arnardal fyrir vestan. Hér er á ferðinni sýning sem getur valdið heiftarlegum hlátrasköllum og er sýningin alls ekki fyrir viðkvæma. Í verkinu er leitað svara við ýmsum merkum spurningum einsog þessum: Geta klámvísur sært drauga? Getur iðrun læknað þynnku? Geta kindur verið kynhverfar? Þjást allir rithöfundar af persónuleikatruflunum? Leikarar eru Ársæll Níelsson og Elfar Logi Hannesson. Með þeim á senunni er tónlistarmaðurinn Guðmundur Hjaltason. Leikmynd, búninga og leikstjórn annast Marsibil G. Kristjánsdóttir.

Vestfirðingar hafa löngum verið þekktir hagyrðingar og sögumenn. Frásagnarlistin er þeim í blóð borin og að henda fram stöku er þeim jafn eðlislægt og að draga andann. Þau eru ófá þjóðskáldin og stórkáldin úr röðum vestfirðinga í gegnum aldirnar og eiga þeir meðal annars þjóðsönginn sem og fyrstu skáldsögu Íslands. Það er því um auðugan garð að grisja þegar þeir félagar í Kómedíuleikhúsinu gera vestfirskum skáldskap skil og liggur því í augum uppi að 57 mínútur er auðvitað fullknappt. Þetta leika þeir samt eftir á sinn kómískan hátt, svo að úr verður bráðfjörug og skemmtileg sýning, sneisafull af sprenghlægilegum uppákomum með tilvísanir í okkar þekktustu skáld.

Að skáldskapnum loknum verður farið í gegnum Vestfirska tónlist á 27. mín. Einsog í skáldskapnum á tónlistin að vestan sér einnig litríka sögu eða hver kannast ekki við BG og Ingibjörg, Facon, Ýr, Grafík, Biggi Bix og þannig mætti lengi telja. Allir verða frjálsir í stuði og geta sungið með.

{mos_fb_discuss:2}