Leikfélag Selfoss æfir nú af fullum krafti Kirsuberjagarðinn eftir Anton Tsjekhov í þýðingu Jónasar Kristjánssonar. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson og er þetta annað verkið sem Rúnar setur upp með LS. Alls koma um 25 manns að sýningunni, þar af eru 16 leikarar og tveir leikandi hljóðfæraleikarar. Það er sérlega gaman frá því að segja að meðal leikara eru þrír fyrrverandi formenn LS, þau Magnús J. Magnússon, Guðfinna Gunnarsdóttir og Sigríður Hafsteinsdóttir, auk núverandi formanns, F. Ella Hafliðasonar.
Kirsuberjagarðurinn er síðasta og mest leikna leikrit Tsjekhovs. Það er sannkölluð leikhúsperla um ástir, drauma og vonir og er af mörgum talið eitt besta leikverk allra tíma.
Leikritið gerist snemma á 19. öld og segir frá aðalsfrúnni Ljúbov Ranévaskja, fjölskyldu hennar og fylgifiskum. Fjölskyldan hefur eytt um efni fram án þess að leiða hugann að morgundeginum, föst í rómatískum minningum fortíðarinnar. Óðalssetrið, ásamt víðfrægum kirsuberjagarði, rambar á barmi gjaldþrots og yfirvofandi er uppboð á eigninni. Í stað þess að horfast í augu við það sem koma skal kjósa þau að grípa til veisluhalda og skemmtanna, að ræða um nágrannanna, um veikindi sín og um gamla daga.
Á meðan fjölskyldan forðast að takst á við vandamál sín kynnast áhorfendur öllu þessu grátbroslega fólki, dætrunum Vörju og Önju, þjónustufólkinu, starfsfólki og vinum fjölskyldunnar. Öll eiga þau drauma og þrár, sumir þrá fortíðina á meðan aðrir eiga sér von um nýtt og betra líf. En öll dreymir þau um ástina.
Frumsýnt verður föstudaginn 19. febrúar í Litla leikhúsinu við Sigtún.
Miðapantanir á leikfelagselfoss@gmail.com og í síma 482-2787.