Leikfélag Selfoss
Kirsuberjagarðurinn eftir Anton Tsjekhov. Þýðing Jónas Kristjánsson.
Leikstjórn Rúnar Guðbrandsson

Það var hátíðleg stemming í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi á frumsýningu á Kirsjuberjagarðinum 19. feb. s.l. Það heyrðist strax á samræðunum í anddyri leikhússins að hér voru kröfuharðir áhorfendur á ferð. Þegar boðið er upp á sjálfan Tsjekhov og Rúnar Guðbrandsson er fenginn til að stýra hinum skrautlega leikhópi Selfyssinga er ljóst að menn munu ekki sætta sig við neina meðalmennsku. Ég setti mig strax í dramatískar stellingar, enda er Kirsjuberjagarðurinn mesta stofudrama heimsbókmenntanna.
Strax og ljósin kviknuðu var þó ljóst að eitthvað nýstárlegt var í vændum. Sviðið var þakið haustlaufi trjánna í garðinum og á bakvegg var undarleg lýsing þar sem yfirþjónninn Firs birtist, ótrúlega gamall og hægur, og kona söng tregafullan haustsöng baksviðs. Svo stormaði allur leikhópurinn inn á sviðið og atburðarásin fór af stað. Það er óþarft að rekja þá sögu en nú var hún þó sögð með öðrum hætti en ég átti von á. Í ljós kemur, hér á bökkum Ölfusár, að Kirsjuberjagarðurinn er í grunninn dúndrandi gamanleikur með söngatriðum, grímubúningum og dansi þar sem gert er létt grín af öllu og öllum – en samt heldur hann sínum tragísku þáttum og persónum. Og í þessari uppfærslu var komin ný aðalpersóna í verkið, sem opnar það og lokar því og á óborganlegar senur inn á milli, án þess þó að varpa skugga á hina klassísku söguhetjur Tsjekovs. Þetta er fyrrnefndur öldungur, Firs. Einu tók ég líka fljótt eftir, og fékk staðfest hjá leikstjóra, engu orði er sleppt úr frumtextanum, leikritið er flutt nákvæmlega eins og höfundurinn skrifaði það. Þess vegna er þetta löng sýning í mínútum talið, líka vegna þess að margar senurnar eru hægar og jafnvel teygt rækilega á þeim en þessar mínútur líða ótrúlega hratt.
Leikhópurinn er stór, 18 manns eru nefndir í leikskrá, og hann er líka frábær. Ég ætti auðvitað að nefna aðalleikarana en vandamálið er að ég er ekki viss um hverjir eru aðal og hverjir auka. Allir fá einhvern veginn að blómstra þarna í sölnandi haustlaufinu sem hylur jörðina, jafnt þeir sem hafa mikinn texta og hinir sem ekki hafa jafnmargt að segja. Hver og einn fær sín tækifæri og flestir fara vel með þau því leikstjórinn kann sýnilega þá kúnst að laða fram og nýta hinar sterku hliðar einstaklinganna. Uppstillingar og hópsenur eru oft undurfagrar enda er birtan og beiting ljósanna snilldargóð. Búningar eru vandaðir og fjölbreyttir og fara vel. Tónlistin, píanóleikurinn og söngurinn, fyllir mann trega haustsins jafn vel þótt maður sé öðrum þræði fullur af innri gleði.
Eitt af því sem gerir áhugaleikhúsið svo töfrandi er gleðin sem gjarnan ríkir í salnum yfir framgöngu leikaranna, leiktöktum afa og ömmu eða frammistöðu barnanna á sviðinu. Hér eru ekki atvinnumenn að vinna vinnuna sína heldur fólk úr hversdagslífinu að bregða sér í ný gervi. Aðstandendur sitja í salnum og skellihlæja af gleði og stolti yfir sínum manni. Þannig var það líka á þessari sýningu.
En þótt þetta sé áhugaleiksýning fullyrði ég að þeir leikhúsfræðingar landsins, bókmenntafólk og Tsjekhovunnendur sem láta þessa uppsetningu fram hjá sér fara eru að gera skyssu.
Að lokum verð ég að nefna leikskrána, þar er fölnandi kirsjuberjalaufið á forsíðu og síðan allt sem á að vera í leikskrá, ávarp formanns, upplýsingar um verkið, myndir og síðast verkefnaskrá leikfélagsins allt frá 1958. Ég taldi 76 titla og verk sem farið hafa sviðið hjá þeim Selfyssingum. Þetta er leikfélag sem hefur vigt!
Þrátt fyrir þetta verð ég að viðurkenna að ég er fáfróðari eftir þessa sýningu en ég var áður en ég sá hana. Ég veit t.d. ekki hvort Kirsjuberjagarðurinn er kómedía eða drama, ég veit ekki hverjir teljast aðalpersónur og hverjir aukapersónur, ég veit ekki hverjir höndlað hafa hamingjuna og hverjir eru í tómu tjóni og ég veit ekki hvort leikritið endar vel eða illa. Þetta hafði ég allt á hreinu til að byrja með. Þar að auki veit ég ekki hvort þessi umsögn um verkið er er lof eða last. Hitt veit ég að ég upplifði nýja leikhúsreynslu og skemmti mér hreint konunglega.

Árni Hjartarson