Þjóðleikhúsið heldur upp á 100 ára afmæli Thorbjörns Egners með því að setja á svið tvö af hans vinsælustu leikritum, Dýrin í Hálsaskógi á Stóra sviðinu og Karíus og Baktus í Kúlunni.  Frumsýning á Karíusi og Baktusi verður í Kúlunni 29. desember. Leikstjóri er Selma Björnsdóttir og það eru Ágústa Eva Erlendsdóttir og Friðrik Friðriksson sem fara með hlutverk litlu skrattakollanna.

Karíus og Baktus eru pínulitlir tannálfar sem hafa komið sér fyrir í munninum á drengnum Jens. Þar lifa þeir sældarlífi, enda er Jens helst fyrir að borða allskyns sætindi og hann notar tannburstann lítið. En þessir tveir hrappar skemma tennurnar í Jens og þegar þeir gerast of aðgangsharðir verður Jens að fara til tannlæknis. Og nú þurfa Karíus og Baktus að glíma við tannbursta og tannlæknabor…!

Sagan um Karíus og Baktus kom fyrst út á bók árið 1949 og síðan þá hafa þessir litlu þrjótar notið fádæma vinsælda meðal barna víða um heim. Þeir hafa skotið upp kollinum víða, meðal annars í brúðukvikmynd, á hljómplötu og í leikhúsi. Skemmtilegt leikrit sem á erindi við alla krakka.

Tónlist: Christian Hartmann

Þýðing: Hulda Valtýsdóttir
Leikmynd og Búningar: Brian Pilkington.