Næstkomandi laugardag, 17. október frumsýnir Leikfélag Sauðárkróks Kardemommubæinn eftir Thorbjörn Egner. Hulda Valtýsdóttir þýddi verkið og Kristján frá Djúpalæk þýddi söngtextana. Leikstjóri er Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir.

Í Kardemommubæ búa margar skemmtilegar persónur sem lifa sínu lífi með bakaríi og rakarastofu og dýrasala, auk bæjarfógetans sem heitir Bastían. Það er líka eins gott því á stjái eru þrír ræningjar sem rupla og þarf bæjarfógetinn að hafa sig allan við til að hafa aðgát á þeim og halda öllu í röð og reglu.

En ræningjarnir eru líka góðir og reynast hjálparhellur þegar neyð kemur upp í Kardemommubænum.

26 leikarar eru á sviðinu og alls koma 55 manns að sýningunni. Þetta er í annað skiptið sem Leikfélag Sauðárkróks setur upp Kardemommubæinn, en félagið setti verkið upp í fyrra skiptið árið 1987.

Sýningarplan er eftirfarandi:

Frumsýning laugardaginn 17. okt. kl. 16:00
2. sýning sunnudaginn 18. okt. kl. 14:00
3. sýning miðvikudaginn 21. okt. kl. 18:00
4. sýning föstudaginn 23. okt. kl. 18:00
5. sýning laugardaginn 24. okt. kl. 16:00
6. sýning sunnudaginn 25. okt. kl. 14:00
7. sýning þriðjudaginn 27. okt. kl. 18:00
Lokasýning miðvikudaginn 28. okt. kl. 18:00

Miðasala er í síma 849 9434 og einnig í Bifröst 30 mínútum fyrir sýningar.

Meðfylgjandi mynd er eftir Söru Líf Elvarsdóttur og Guðrúnu Emelíu Sigurbjörnsdóttur úr Árskóla á Sauðárkróki, en myndin var valin sigurmynd í teiknisamkeppni sem efnt var til í sambandi við uppsetningu leikfélagsins á Kardemommubænum.