Fimmtudaginn 5. mars kl. 20.00 frumsýnir Borgarleikhúsið á Litla sviðinu einleikinn Óskar og bleikklædda konan eftir Eric-Emmanuel Schmitt. Verkið fjallar um Óskar, tíu ára dreng sem þjáist af hvítblæði og bíður hins óhjákvæmilega á spítala.  Sjálfboðaliði sem kemur reglulega í heimsóknir hvetur Óskar til þess að skrifa bréf til Guðs og skapa sér þannig framtíð sem ósennilegt er að hann muni lifa. Leikritið er í senn einstaklega fallegt, fyndið og hjartnæmt. Það er Margrét Helga Jóhannsdóttir sem flytur einleikinn en það hefur hún áður gert með eftirminnilegum hætti í hlutverki Sigrúnar Ástrósar sem sló heldur betur í gegn. Leikstjóri er Jón Páll Eyjófsson sem er annar af fastráðnum leikstjórum Borgarleikhússins.

Sumar sögur eru svo mannbætandi að skylda ætti fólk til að lesa þær. Óskar og bleikklædda konan segir af Óskari, tíu ára einstökum dreng, sem veit það sem enginn þorir að segja honum, að hann á skammt eftir ólifað. Eldri kona sem er sjálfboðaliði á sjúkrahúsinu, virðist vera sú eina sem hefur þroska og þor til að ræða hið óumflýjanlega við Óskar og ráðleggur honum að skrifa bréf til Guðs. Í bréfunum og samskiptum drengsins og vinkonu hans á sjúkrahúsinu birtist djúp lífsspeki sem þó er uppfull af hlýlegum leiftrandi húmor.

Óskar og bleikklædda konan er eitt þeirra verka sem hreyfa við fólki á eftirminnilegan hátt. Höfundurinn Eric-Emmanuel Schmidt fæddist í Lyon 1960. Hann stundaði tónlistarnám og lauk háskólaprófi í heimspeki. Frá 1991 hefur Schmitt skrifað fjölda leikrita, þeirra þekktast Gesturinn, Abel Snorkó býr einn og Léttúð. Eric-Emmanuel Schmitt skrifaði söguna um Óskar sem lokaþátt í þríleik um hlutverk trúarbragðanna í mannlegu samfélagi.

Jón Páll Eyjólfsson hefur sýnt sig og sannað í hlutverki leikstjórans á undanförnum árum. Skemmst er að minnast einstaklega vel heppnaðrar uppfærslu hans á leikriti Martin McDonaghs, Vestrið eina sem sýnt var á Nýja sviði Borgarleikhússins fyrr á leikárinu og fékk frábærar viðtökur. Jón Páll mun ásamt félögum sínum í Mind Camp, þeim Halli Ingólfssyni og Jóni Atla Jónssyni frumsýna verkið Þú ert hér. Margrét Helga Jóhannsdóttir hefur á farsælum hrifið leikhúsgesti í fjölda leiksýninga, komið fram í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. Auk þess að leika í Óskari hefur Margrét Helga leikið í Fló á skinni í vetur í Borgarleikhúsinu.

Frumsýnt 5. mars á Litla sviði
Leikari. Margrét Helga Jóhannsdóttir
Leikstjóri. Jón Páll Eyjólfsson
Leikmynd og búningar. Snorri Freyr Hilmarsson
Lýsing. Þórður Orri Pétursson

{mos_fb_discuss:2}