Leikritið Karíus og Baktus hefur kætt norðlensk börn á undanförnum mánuðum og notið fádæma vinsælda. Vegna fjöla áskorana verður sýningin sýnd í Reykjavík í örfá skipti í febrúar og byrjun mars. Sýningar verða í Borgarleikhúsinu og hefst miðasala á miðvikudag kl. 13. Vegna anna leikaranna er um takmarkaðan sýningarfjölda að ræða, en Guðjón Davíð og Ólafur Steinn leika nú í Svörtum ketti sem sýnt er á Akureyri. Það er því um að gera að tryggja sér miða í tíma.

 

Karíus og Baktus
Ófrýnilegu grallararnir Karíus og Baktus gerðu allt vitlaust á Akureyri fyrir jól og ætla nú að taka höfuðborgina með trompi. Þeir höggva, berja, öskra og heimta í munninum á Jens, sem gefur þeim nóg af sætindum! Þeir eru svakalegir og skemmtilegir, hættulegir og hlægilegir í senn, svo sæluhrollur hríslast niður bakið á áhorfendum, ungum sem öldnum. „Einu sinni var drengur sem hét Jens. Hann hafði tennur í munninum eins og við höfum öll. En í einni tönninni hans Jens var gat og í því bjuggu tveir litlir náungar sem hétu Karíus og Baktus. Ykkur finnst þetta kannski undarleg nöfn, en þetta eru líka undarlegir náungar…“

Sýningin er stutt, tekur um hálfa klukkustund í flutningi og tilvalin fyrir þá sem eru að kynnast töfrum leikhússins í fyrsta skipti.

Það var Hulda Valtýsdóttir sem þýddi en leikstjóri er Ástrós Gunnarsdóttir. Leikmynd og búninga hannar Íris Eggertsdóttir, ljósahönnuður er Sveinn Benediktsson og Ragna Fossberg á heiðurinn af gervahönnun. Tónlistin úr verkinu í flutningi 200.000 naglbíta er nú komin út og fáanleg í öllum betri hljómplötuverslunum.
Grallarana Karíus og Baktus leika þeir Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur Steinn Ingunnarson. Samstarfsaðili er Colgate.

Miðasala hefst í Borgarleikhúsinu miðvikudaginn 24. janúar kl. 13.

Að gefnu tilefni: Kvöldsýningar LA í vetur fara ekki suður.

Á síðasta leikári hélt LA til Reykjavíkur með tvær vinsælar sýningar, Fullkomið brúðkaup og Litlu hryllingsbúðina. Báðar sýningar gengu vonum framar í höfuðborginni og Fullkomið brúðkaup sló sölumet í Borgarleikhúsi þegar sala hófst. Af gefnu tilefni skal tekið fram að ekki stendur til að koma með kvöldsýningar vetrarins frá LA til Reykjavíkur. Fjöldi fyrirspurna og áskorana barst um að flytja Herra Kolbert suður en vegna anna leikara varð því ekki við komið, enda sýningin vinsæl á Akureyri og fastráðnir leikarar leikhússins í öllum verkum vetrarins. Sömu sögu er að segja um Svartan kött sem frumsýndur verður nú um helgina og Lífið – notkunarreglur sem frumsýnt verður í mars. Reykvíkingar sem áhuga hafa á að sjá aðrar sýningar LA en Karíus og Baktus ættu því að gera sig ferðbúna og skella sér í helgarferð norður.