Laugardaginn 23. september verður hið sígilda barnaleikrit Karíus og Baktus eftir Thorbjorn Egner frumsýnt hjá LA. Verk Thorbjorns Egners eru ætíð vinsæl en þetta er í fyrsta sinn sem Karíus og Baktus eru settir upp norðan heiða. Í uppsetningu LA er tónlistin flutt í nýrri og grallaralegri útgáfu hljómsveitarinnar 200.000 naglbítar.

Karíus og Baktus verða sýndir í nýju leikhúsi LA, Rýminu í september, október og nóvember. Sýningin er stutt, tekur um hálfa klukkustund í flutningi og tilvalin fyrir þá sem eru að kynnast töfrum leikhússins í fyrsta skipti.

Verk Thorbjörns Egners eru fastir liðir á verkefnaskrám íslenskra leikhúsa. Hver þekkir ekki Soffíu frænku, Lilla klifurmús, Mikka ref og Bæjarfógetann Bastían? Kardimommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi hafa oft sést á íslenskum fjölum og meðal annars hjá LA. Karíus og Baktus hafa lifað með þjóðinni á ýmsan hátt, ekki síst sem vinsælt útvarpsleikrit sem gefið var út á hljómplötu en einnig sem sjónvarpsmynd og auðvitað sem leiksýning.  Þetta er í fyrsta sinn sem leikritið er sett upp hjá LA.
 
Árið 1970 framleiddi Ríkissjónvarpið sjónvarpsmynd upp úr verkinu um Karíus og Baktus. Leikstjóri og sögumaður var einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Helgi Skúlason heitinn. Með hlutverk Jens þá fór Skúli Helgason, þá barn að aldri.  Skúli er löngu orðinn þekktur sem vinsæll útvarpsmaður og nú framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Nú 36 árum síðar bregður hann sér í hlutverk sögumannsins og fetar þar með í fótspor föður síns. Sonur Skúla, Teitur Helgi Skúlason, fer nú með hlutverk Jens. Það má því með sanni segja að sagan fari í hringi, hvað íslenskar uppfærslur á Karíus og Baktus varðar.

Það var Hulda Valtýsdóttir sem þýddi en leikstjóri er Ástrós Gunnarsdóttir. Leikmynd og búninga hannar Íris Eggertsdóttir, ljósahönnuður er Sveinn Benediktsson og Ragna Fossberg á heiðurinn af gervahönnun. Hljómsveitin 200.000 naglbítar hafa endurútsett tónlistina og sjá sjálfir um flutninginn.
Grallarana Karíus og Baktus leika þeir Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur Steinn Ingunnarson.
 
Samstarfsaðili er Colgate.