Í tilefni þess að í vikunni verða tvær sýningar á fjölum Þjóðleikhússins sem tengjast rithöfundinum Franz Kafka gengst leikhúsið fyrir Kafka-kvöldi í Þjóðleikhúskjallaranum næstkomandi miðvikudagskvöld. Verkið Hamskiptin, sem byggt er á einni af frægustu sögum tékkneska rithöfundarins Franz Kafka, er nú sýnt á Stóra sviðinu í rómaðri uppfærslu leikhópsins Vesturports en næstkomandi fimmtudag verður gestaleikur frá kanadísku leikhópunum Threshold og Theaturtle frumsýndur á Smíðaverkstæðinu. 

 
Sýningin Kafka og sonur kemur frá Kanada í boði Þjóðleikhússins og með stuðningi kanadíska sendiráðsins, en hún var frumsýnd þar í landi snemma á þessu ári. Á undanförnum mánuðum hefur sýningin farið sannkallaða sigurför um leikhús vítt og breitt í heimalandinu.
Samband Franz Kafka við föður sinn verður seint sagt ljúft eða hnökralaust. Verkið Kafka og sonur byggir á bréfi sem Kafka skrifaði föður sínum en sendi aldrei. Franz Kafka bjó þá enn í foreldrahúsum, skrifstofumaður og óframfærinn listamaður sem lifði í skugga óheflaðs og yfirþyrmandi föður. Í bréfinu afhjúpar hann tengsl milli höfundarverks síns og lífshlaups sem greina má meðal annars í verkum á borð við Hamskiptin og Réttarhöldin, og játar jafnframt að öll sín skrif hafi á einn eða annan hátt snúist um föðurinn og skugga hans. 
 

 
Einleikur þessi kallast á áhugaverðan hátt á við sýningu Þjóðleikhússins og Vesturports á Hamskiptunum eftir Frans Kafka sem nú er sýnd á Stóra sviðinu og ætti að gefa aðdáendum Kafka og raunar öllum þeim sem áhuga hafa á bókmenntum og leikhúsi einstakt tækifæri til að skyggnast inn í hugarheim þessa merka rithöfundar og velta um leið fyrir sér þeim tilfinningum sem lágu að baki skrifum hans og sköpunarþörf. Hin sérstæða og harmræna fjölskyldusaga sem birtist okkur í Hamskiptunum, verður jafnvel enn átakanlegri, þegar hún er skoðuð í því ljósi sem einleikurinn Kafka og sonur varpar á líf höfundarins og samband hans sjálfs við föður sinn. Höfundar leikgerðarinnar eru þeir Mark Cassidy, leikstjóri sýningarinar og leikarinn Alon Nashman, sem jafnframt fer á kostum í sýningunni þar sem hann bregður sér ýmist í hlutverk sonar eða föður. 

 
Leikið er á ensku en sýningar verða á Smíðaverkstæðinu, kl. 20:00 dagana 18.- 20. október.
 
Í tengslum við sýningar Þjóðleikhússins á Hamskiptunum og verkinu Kafka og sonur verður haldið málþing um Franz Kafka á vegum Þjóðleikhússins þann 17. október. Þar munu fræðimenn og listafólk ræða vítt og breitt um höfundinn og verk hans en meðal þátttakenda verða Ástráður Eysteinsson prófessor og þýðandi, leikhúslistamaðurinn Alon Nashman og Ása Helga Hjörleifsdóttir bókmenntafræðingur. Ástráður hefur glímt við höfundinn Kafka með ýmsum hætti, bæði í störfum sínum sem kennari og þýðandi verka hans en hann hefur meðal annars þýtt verkin Réttarhöldin og Umskiptin, ásamt Eysteini Þorvaldssyni. Ástráður mun vera með stutta kynningu á höfundinum, ræða um þýðingastörf sín og um söguna Umskiptin. Alon Nashman mun segja frá vinnunni að baki verkinu Kafka og sonur og varpa ljósi á sjónarhorn listamannsins á efnivið þann sem fólginn er í fjölskyldusögu rithöfundarins. Ása Helga Hjörleifsdóttir mun síðan ræða um hið ósegjanlega í verkum Kafka og hvernig kvikmyndagerðarmaðurinn David Lynch vinnur með hinn „ósegjanlega“ þráð sem finna má í Umskiptunum í mynd sinni Mulholland Drive.
 

{mos_fb_discuss:2}