ImageÞjóðleikhúsið opnar þann 4. nóvember næstkomandi nýtt leikrými, Kúluna, sem er helgað ungum áhorfendum og nýrri leikhúsreynslu. Kúlan er þar sem áður var Litla svið Þjóðleikhússins.

Kúlunni er ætlað að vera tilraunasvið helgað leiklistaruppeldi. Þar mun leikhúsið kynna ungum áhorfendum leikhúsið með smábarnasýningum og smærri barna- og unglingasýningum. Í Kúlunni munu einnig áhorfendur á öllum aldri geta öðlast nýja leikhúsreynslu, og meðal annars kynnst leikhúsinu á nýjan hátt í gegnum brúðuleiksýningar af ýmsu tagi.

Kúlan er í sama húsi og Kassinn, í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu 7. Kassinn og Kúlan eru hvort um sig vettvangur tilrauna á sviði leiklistar, þar sem bæði leikhúsfólk og áhorfendur nálgast leikhúsið á nýjan hátt.

Vígslusýning Kúlunnar verður Umbreyting – Ljóð á hreyfingu, brúðuleiksýning sem er einkum ætluð fullorðnum. Í þessari sýningu leiðir brúðusnillingurinn Bernd Ogrodnik áhorfendur inn í töfraveröld brúðuleikhússins í gegnum stuttar sögur sem fjalla um lífið í sínum ólíkustu myndum. Umbreyting var frumsýnd á Listahátíð í Reykjavík á liðnu vori og hlaut afbragðsgóðar viðtökur. Sýningar verða í nóvember og byrjun desember.

Eftir áramót verður sýning fyrir yngstu áhorfendurna í Kúlunni, brúðusýning Bernd Ogrodniks Pétur og úlfurinn. Sýningin er byggð á samnefndri sögu og tónverki Sergeis Prokofiefs, sem tónskáldið samdi í þeim tilgangi að kenna börnum að skilja og njóta tónlistar. Í sýningunni birtist okkur þetta óviðjafnanlega ævintýri myndrænt með aðstoð handútskorinna leikbrúða sem Bernd stjórnar af sinni alkunnu snilld.

Með vorinu mega yngri áhorfendur eiga von á lítilli barnaleiksýningu í Kúlunni.

Opnun hins nýja leiksviðs, Kúlunnar, er liður í viðleitni Þjóðleikhússins til að kynna leikhúsið fyrir nýjum áhorfendum. Kjörorð þessa leikárs er „Þjóðleikhúsið fyrir alla!“ og leikhúsið hefur lagt sig fram um að færa leiklistina nær ólíkum þjóðfélagshópum og áhorfendum á öllum aldri. Sérstök áhersla er lögð á að opna heim leikhússins fyrir áhorfendum framtíðarinnar, börnum, unglingum og ungu fólki.