Jólasýning Borgarbarna árið 2014 heitir Mamma Gjé. Þetta er níunda árið sem Borgarbörn setja upp jólasöngleik sem ætlaður er öllum aldurhópum og stílað er inn á fjölskylduskemmtun. Þessi skemmtilegi jólasöngleikur inniheldur fjölmörg vinsæl erlend lög í íslenskum búningi, óvæntar uppákomur og kraftmikla dansa. Leikstjóri og höfundur handrits er Erla Ruth Harðardóttir og henni til aðstoðar er Karen Ýr Jóelsdóttir. Um söngstjórn sér Rebekka Sif Stefánsdóttir og danshöfundur er Auður Finnbogadóttir. Frumsýning verður í Iðnó 30. nóvember og standa sýningar fram að jólum.
Sýningin fjallar um ævintýri Mömmu Gjé og þeirra þrettán barna sem hún er með í fóstri. Nú, þegar jólahátíðin er að ganga í garð og einungis þrettán dagar til jóla, er nóg að gera hjá fósturbörnunum sem ganga í ýmis misjöfn verk, að skipan Mömmu Gjé. Heimsókn Brynhildar fulltrúa barnaverndar setur strik í reikninginn ásamt því að koma fjórtánda fósturbarnsins, ruglar Mömmu Gjé aldeilis í ríminu. Fjórtán er bara alls ekki réttur fjöldi! Inn í leikinn skerast svo Úrsúla og Álfadís sem greinir svo sannarlega á um framvinduna.
Tenging Mömmu Gjé og fósturbarnanna þrettán við aðra kellu og hennar þrettán sveina er skemmtileg. Þó skal taka fram, að hér er á ferðinni allt önnur saga…
Sýningartími er rétt undir klukkustund.
Sýningatímar eru flesta virka morgna kl. 9.30 og/eða 11.00, virka eftirmiðdaga kl. 17.00/17.30 og um helgar kl. 14.00 og/eða 16.00.
Miðaverð er 1.000 kr. Kaup á einni sýningu (150 sæti) er tilvalið fyrir starfsmannafélög og skóla. Þá er miðaverð einungis kr. 650 á einstakling og heildarverð fyrir sýningu kr. 97.500. Innifalið í þeim kaupum er djús og piparkökur fyrir áhorfendur eftir sýningu.
Upplýsingar eru einnig veittar í síma: 861-6722 eða á borgarborn@gmail
Jólagjafasöfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd er árleg hefð á sýningum Borgarbarna. Áhorfendur geta komið með pakka á sýningar, merktan aldri og kyni. Borgarbörn sjá síðan um að koma pökkunum til Mæðrastyrksnefndar í tæka tíð fyrir jól.