Í tilefni Menningarnætur verður leiksýningin um Jörgen Jörgensen, betur þekktan sem Jörund hundadagakonung, flutt aftur laugardaginn 22. ágúst. Í þetta sinn verður sýnt í Batteríinu og hefst sýningin klukkan 16.00. Aðgangur er ókeypis á meðan húsrúm leyfir. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir en höfundar handrits eru Ármann Guðmundsson og Þorgeir Tryggvason.

Tilefnið er 200 ára afmæli hinnar stuttu en litríku valdatíðar Jörundar á Íslandi. Stiklað verður á stóru í ótrúlega viðburðaríku lífshlaupi þessa danska úrsmiðssonar og sægarps, en þó valdatíð hans á Íslandi sé sennilega hápunkturinn í ferli hans þá var hún svo sannarlega ekki það eina frásagnarverða. Á saga hans svo sannarlega erindi við okkur, ekki síst á þeim viðburðaríku tímum sem við lifum nú.

Frumleg nálgun Ágústu Skúladóttur á leikhúsið hefur skilað sér í mörgum eftirminnilegum sýningum á síðustu árum, og má þar nefna Sellófón, Eldhús eftir máli, Klaufa og kóngsdætur og Bólu-Hjálmar, en tvær síðarnefndu sýningarnar fengu Grímuverðlaun sem besta barnasýningin. Þar komu einnig við sögu sem handritshöfundar þeir Ármann og Þorgeir. Tónlistarflutningur í sýningunni er í höndum Ármanns Guðmundssonar, Eggerts Hilmarssonar og Hjalta Stefáns Kristjánssonar en með aðalhlutverk fara þó Magnús Guðmundsson, sem leikur Jörund, og Huld Óskarsdóttir sem bregður sér í ýmis hlutverk.

Á undan sýningunni er boðið upp á sögugöngu um miðbæinn þar sem valdatíð Jörundar verður gerð skil áður en galgopahátturinn tekur yfir á Batteríinu. Gangan hefst kl. 15.00 á Lækjartorgi.

{mos_fb_discuss:2}