Nýlega kom út bókin Allt fyrir andann, Saga Bandalags íslenskra leikfélaga 1950-2000. Þar er rakin saga Bandalagsins í 50 ár en allt frá stofnun hefur hreyfingin verið öflugur bakhjarl leikfélaganna í landinu og tilkoma hennar blés nýju lífi í leikstarf úti um allt land.
Greint er frá aðdraganda og stofnun Bandalagsins, upphafsárum þess og fyrstu verkefnum. Þá er þráðurinn rakinn í gegnum árin og áratugina og sýnt hvernig hreyfingin þróaðist með tímanum en sú þróun var hreint ekki alltaf átakalaus. Bjarni Guðmarsson sagnfræðingur og áhugaleikari tók saman.
Bókin er seld á skrifstofu BÍL að Suðurlandsbraut 16, sími 5516974, netfang info@leiklist.is, og í völdum bókabúðum. Verðið er 5.500 og við sendum hvert á land sem er.
Ritdómur, skrifaður af Jóni Viðari Jónssyni, birtist í DV 20. nóvember sl. Hér má lesa brot úr dómnum:
"Bjarni rekur upphafið að tilurð Bandalagsins skilmerkilega og lýsir þætti manna eins og Ævars R. Kvarans og Lárusar Sigurbjörnssonar, en Ævar var sá sem fyrstur hreyfði hugmyndinni um stofnun samtakanna fyrir alvöru og var síðan formaður þeirra fyrstu átta árin. Bjarni veit bersýnilega að svona stofnana- og félagssögur vilja verða þurr lesning og leitast því við að krydda frásögnina með ýmsum skemmtilegheitum sem leynast meðal annars í gömlum bréfum frá félögunum til skrifstofunnar í Reykjavík. Þar má rekast á sitthvað kostulegt, eins og þegar Eyfirðingur nokkur spyr hvort skrifstofan geti útvegað þeim fuglasöng, hundgá og veðurhljóð á segulbandi. Séu slík hljóð ekki til þar syðra, verði bændur bara að drífa sig út í móa með sínar eigin græjur. Gamli hrepparígurinn hefur líka skilið eftir sín spor, sum heldur brosleg í okkar augum."