Japanski leikhópurinn Theatre du Sygne frumsýnir Snegla tamin eða Taming of the Shrew eftir William Shakespeare á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 16. september kl. 20.00.
Sýningin kemur til Íslands í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að Japan og Ísland tóku upp stjórnmálasamband.

Leikhópurinn Theatre du Sygne hefur tekist á við fjölda verka eftir Shakespeare og ferðast með sýningar víða um heim. Meðal fyrri verkefna hópsins eftir Shakespeare má nefna Kaupmanninn í Feneyjum, Makbeð og Óþelló.
 
Sýningin á Snegla tamin er frumsýnd á þessari leikför, og er Ísland fyrsti áfangastaður hópsins á ferð til fleiri landa Evrópu.
Leiksýningin er flutt á japönsku með enskum skýringartextum og varir í 105 mínútur án hlés.

Leikstjóri er Hisao Takase. Leikmynd gerði Izumi Matsuoka en tónlist er eftir Shihoko Miyaki. Leikarar eru Shiro Arai, Hirokazu Hayashi, Yohei Matsukado, Atsuko Ogawa, Gouki Ogawa, Motonobu Hoshino, Kazuro Yano, Seiko Tano, Mitsutaka Tachikawa, Ken Hojo, Yasuhiro Wakita og Izumi Matsuoka.