Nú fer aðventan í hönd og þá er hefð fyrir því að leikfélagið Hugleikur bregði sér í jólafötin og skemmti sér og öðrum sem aldrei fyrr. Jóladagskrá Hugleiks heitir að þessu sinni Jólabónus og verður framin í Þjóðleikhúskjallaranum þriðjudaginn 5. og fimmtudaginn 7. desember klukkan 21.00.

Leikfélagið Hugleikur fékk á dögunum viðurkenningu á degi íslenskrar tungu fyrir nýsköpun í leikritun, útúrsnúning ýmiskonar á tungumálinu og allskyns meðferð á menningararfinum. Félagið sér því sóma sinn, sem aldrei fyrr, í að vinna af atorku að þessu öllu saman, nú á viðurkenndan hátt. Og sjaldan úr jafnmiklu að moða og einmitt þegar kemur að jólunum. Að þessu sinni verða í boði fjórir einþáttungar eftir jafnmarga höfunda í leikstjórn jafnmargra félagsmanna en eru þeir leiknir af miklu fleirum. Einþáttungarnir sem í boði eru að þessu sinni eru:

Bónusförin eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Sigurðar H. Pálssonar
Jólasveinar eru líka kynverur eftir Nínu B. Jónsdóttur í leikstjórn Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur
Mikið fyrir börn Þórunn Guðmundsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir. Innblásið af lögum og textum af jóladisknum "Það besta við jólin"
Skurður eftir Sigurð H. Pálsson í leikstjórn Guðmundar Erlingssonar

Auk þess verður á boðstólnum Hugleikræn jólatónlist úr ýmsum áttum, m.a. í flutningi söngsveitarinnar Hjáróms og stórsveitarinnar Ljótu hálfvitanna. Ekki er síðan loku fyrir það skotið að eitthvað verði gripið í jólaföndur.

Hugleikur hefur á undanförnum árum gert nokkuð af því að sýna dagskrár einþáttunga úr smiðju félagsmanna. Jóladagskrárnar hafa þó verið nokkuð sér á parti, en það var árið 2000 sem nokkur jólabörn innan félagsins tóku sig til og settu saman dagskrána Rauð jól, sem sýnd var í Kaffileikhúsinu. Síðan hefur tíðkast að Hugleikur jóli fyrir landsmenn á aðventunni.