Óperan Mannsröddin (La Voix Humaine) eftir franska tónskáldið Francis Poulenc var samin árið 1958 og er byggð á samnefndu leikriti eftir Jean Cocteau. Óperan er dramatískur einþáttungur sem lýsir síðasta símtali konu til elskhuga síns sem hefur slitið sambandinu eftir fimm ár. Um er að ræða nýja og ferska nálgun á verkið þar sem aðalpersónan, Elle, er túlkuð samtímis af þeim Auði Gunnarsdóttur sópransöngkonu og Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu í sviðsetningu og leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem óperunni og leikritinu er fléttað saman á þennan hátt og hér er farið með áhorfandann í hrífandi óvissuferð um allan mannlega tilfinningaskalann. Píanóleikari Í uppfærslunni er Eva Þyri Hilmarsdóttir. Tónlistarstjóri : Irene Kudela. Búningar og leikmynd: Helga I. Stefánsdóttir. Ljósahönnuður er Pálmi Jónsson og Elmar Þorsteinsson gerir myndbandsverk í leikmynd. Leikritið er í nýrri þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar.

Úr viðtali við Brynhildi Guðjónsdóttur leikstjóra: 

„Yf­ir­leitt hafa bæði leik­kon­ur og söng­kon­ur túlkað síðustu mín­út­ur Manns­radd­ar­inn­ar þannig að Elle hrein­lega springi úr harmi og deyi í lok­in, eða því sem næst. En ég hafna þessu, bæði sem kona og sem listamaður; ég hafna því að ein mann­eskja geti eyðilagt aðra með þess­um hætti og lít frek­ar á loka­stund verks­ins sem upprisu. Elle er hvorki píslar­vott­ur né fórn­ar­lamb, held­ur er hún eins og fugl­inn Fön­ix, sem þarf samt fyrst ösk­una – harm­inn – til að geta risið upp úr henni.“ (Morgunblaðið 6. febrúar 2017)

 FRUMSÝNING 9. febrúar: UPPSELT
2. sýning 10. febrúar kl. 20.00
3. sýning 11. febrúar
4. sýning 26. febrúar
5. sýning 4. mars

Þetta er sýning sem enginn óperu – eða leikhúsunnandi ætti að láta fram hjá sér fara. Takmarkaður sýningarfjöldi í febrúar og mars. Sýnt er í Kaldalónssal Hörpu og tekur flutningur verksins klukkustund.

Miðasala hér:  http://www.opera.is