Laugardaginn 10. október verður haldin Margt Smátt stuttverkahátíð. Að þessu sinni verður hún reyndar ekki í Borgarleikhúsinu, heldur í Félagsheimili Seltjarnarness. Og það er svo sannarlega ekki það eina óvenjulega við þessa hátíð. Stuttverkamenning íslenskra áhugaleikfélaga hefur nefnilega hafið útrás.

Færeyskt áhugaleikhúsfólk hefur um nokkurt skeið fylgst með stuttverkamenningunni hér og dreymt um að taka þátt. Afraksturinn verður á boðstólum á hátíðinni, en þá mæta færeyskir áhugaleikarar með fimm frumsamin stuttverk. Auk þeirra verða á boðstólum fimmtán íslensk stuttverk frá sex leikfélögum. Og þar að auki munu sirkuslistamenn úr leikfélagi Mosfellsveitar setja svip á hátíðina og heimamenn í Leiklistarfélagi Seltjarnarness sýna örverk og uppákomur milli þátta.

Þetta verður því vegleg hátíð og sérstök ástæða til að mæta og sjá hvernig hið sér íslenska stuttverkjaform tekur sig út í meðförum frænda okkar í Færeyjum.

Leiklistarhátiðin hefst klukkan 12.00 með setningarathöfn og verða 20 verk sýnd með tveimur hléum og að því loknu mun Sigrún Valbergsdóttir leikstjóri fjalla um sýningar hátíðarinnar. Um kvöldið kl. 20.00 verður síðan samverustund þar sem þátttakendur í hátíðinni, aðrir áhugaleikarar og þeir sem hafa áhuga á að gleðjast með okkur, hittast aftur í Félagsheimili Seltjarnarness, snæða léttan kvöldverð (gúllassúpu með brauði og salati), horfa á skemmtiatriði og dansa fram eftir kvöldi. Fyrir þátttakendur í hátíðinni er þetta að kostnaðarlausu en aðrir sem mæta í matinn þurfa að greiða 1.000 kr. Ekki þarf að borga ef fólk kemur eftir að mat lýkur.

Þeir sem ætla að fá sér mat þurfa að tilkynna það í síma 551-6974 eða á info@leiklist.is fyrir miðnætti mánudaginn 5. október.

{mos_fb_discuss:3}