Lýðveldisleikhúsið hefur hafið æfingar á nýju dansleikhúsverki fyrir börn. Verkið heitir Út í Kött! og er byggt á útgáfum Roalds Dahl á þremur Grimms ævintýrum en annar texti og þýðingar á kvæðum Roalds Dahl er eftir Benóný Ægisson. Leikstjóri og danshöfundur er Kolbrún Anna Björnsdóttir, búningar og sviðsmynd eru eftir Sigríði Ástu Árnadóttur en tónlist eftir Benóný Ægisson. Flytjendur eru Ragnheiður Árnadóttir söngkona, dansararnir Guðmundur Elías Knudsen og Kolbrún Anna Björnsdóttir og tveir kornungir leikarar, þau Fannar Guðmundsson og Sóley Anna Benónýsdóttir. Stefnt er að því að frumsýna Út í Kött! í apríl.
 
Út í kött! er ævintýraleikur með dansi og söng, fyrir börn á aldrinum fjögurra til tólf ára en fullorðnir ættu líka að hafa gaman að þessu fjöruga verki. Leikurinn fjallar um strákinn Erp sem neyðist til að taka á móti dóttur vinafólks foreldra sinna inn í herbergið sitt. Stelpan Helga Soffía er hress og hraðlýgin og kann frá mörgu undarlegu að segja. Erpur á erfitt með að sætta sig við þennan gest sinn, enda snýr hún heimi hans, þar sem hetjur teiknimynda og tölvuleikja eru karlmenn, á hvolf. Með fjörugu ímyndunarafli sínu nær hún að sýna honum að tilveran þarf ekki að vera niðurnjörvuð í fyrirfram ákveðin hólf og kassa. Sögur Helgu Soffíu eru m.a. þrjú ævintýraljóð Roalds Dahl og fléttast þau inn í leikverkið með tónlist, dansi og söng. Þar birtast Rauðhetta, Öskubuska, prins, úlfar og grísir en Rauðhetta er enginn ráðvilltur sakleysingi sem lætur éta sig mótþróalaust og Öskubuska áttar sig á að hamingjan felst ekki í því einu að vera fótnett og fríð. Í leikhópnum eru leikari, dansari og söngvari ásamt tveimur börnum sem leika þau Erp og Helgu Soffíu, en aðrir þátttakendur munu bregða sér í hin ýmsu hlutverk ævintýranna.
 
Í ævintýraleiknum Út í kött! er staðalmyndunum gefið langt nef og hláturinn notaður til að opna augu áhorfenda fyrir því að heimurinn er ekki eins svart/hvítur og hann sýnist vera. En markmiðið með sýningunni er einnig að vekja börn og fullorðna til umhugsunar um birtingarmyndir staðalmynda í umhverfi barnanna. Mikilvægi skapandi og gagnrýninnar hugsunar er seint ofmetið og því brýnt að börnin fái tæki og tól í hendurnar til að takast á við flóðbylgju misvísandi skilaboða úr umhverfinu. Sýningin er farandsýning og með henni fylgir kennsluefni sem gefur kennurum tækifæri til frekari úrvinnslu á grundvelli leiksýningarinnar.

{mos_fb_discuss:2}