Jens og risaferskjan er …
ImageJens og risaferskjan er haustverkefni Leikfélags Sauðárkróks í ár og hófust æfingar á verkinu nú á dögunum. Jens og risaferskjan er barnaleikrit sem byggt er á sögu eftir breska rithöfundinn Roald Dahl og verður það frumsýnt þann 29. október nk. í Bifröst. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson en hann þýðir jafnframt verkið og semur við það tónlist.

Jens og risaferskjan segir frá dreng sem verður munaðarlaus þegar óður nashyrningur étur foreldra hans. Honum er þá komið fyrir hjá tveimur frænkum sínum sem eru vægast sagt andstyggilegar við hann og láta hann þræla myrkrana á milli. Dag einn hittir hann svo undarlegan mann sem gefur honum poka með litlum grænum ögnum. Jens missir úr pokanum yfir rætur gamla ferskjutrésins og við það fer risastór ferskja að vaxa á trénu. Þar með hefst ótrúlegt ævintýri Jens.

Það hefur um árabil verið fastur liður í starfsemi Leikfélags Sauðárkróks að setja upp barnaleikrit að hausti. Félagið frumsýnir svo jafnan annað verk í Sæluviku Skagfirðinga í lok apríl. Að þessu sinni taka 16 leikarar og þrír hljóðfæraleikarar þátt í sýningunni, þar af eru margir að taka í fyrsta sinn þátt í leiksýningu með félaginu.

Roald Dahl er einn þekktasti barnabóka höfundur heims og á meðal þekktustu bóka hans eru Kalli og súkkulaðiverksmiðjan, Matthildur og Nornirnar.