Batnandi maður er nafnið á leikritinu sem Ármann Guðmundsson er að skrifa og leikstýra hjá Halaleikhópnum um þessar mundir. Í tilefni 15 ára afmælis Halaleikhópsins var ákveðið að fá Ármann til að vinna afmælissýningu en stefnt er að frumsýningu hennar undir lok febrúar.

Á annan tug leikara fara með hlutverk í leikritinu og verður það sýnt í Halanum, Hátúni 12.

Batnandi maður fjallar á gráglettinn hátt um sjómanninn Sigmar sem fengið hefur nóg af sjómennsku og sér tækifæri þegar hann lendir í vinnuslysi til þess að láta úrskurða sig öryrkja og njóta þannig lífsins á kostnað skattborgaranna. Hann sogast brátt inn í heim sem var honum að öllu ókunnugur, eignast nýja vini og óvini, lendir í útistöðum við kerfið og verður svo sannarlega reynslunni ríkari. En þegar upp er staðið er líf öryrkjans kannski ekki alveg eins ljúft og hann taldi í fyrstu. Hvernig getur hann orðið 0% öryrki aftur? Dugir eitthvað minna en kraftaverk? Þetta er ýkjukent raunsæisverk með kaldhæðnum ádeilubroddi, sem fjallar á ábyrgðarfullan og fordómalausan hátt, bæði um fordóma gagnvart öryrkjum og fordóma gagnvart þeim sem hafa fordóma gagnvart öryrkjum.

Frekari upplýsingar um Halaleikhópinn og starfsemi hans má finna á www.halaleikhopurinn.is