Ein vinsælasta ópera meistara Giuseppe Verdi, Il Trovatore eftir Giuseppi Verdi, verður frumsýnd í Eldborg í Hörpu þann 20. október næstkomandi. Óperan er eitt vinsælasta verk þessa ítalska meistara, en ópera eftir hann er nú flutt í fyrsta sinn í tónlistarhúsinu Hörpu. Il Trovatore hefur einu sinni verið sett upp áður í Íslensku óperunni, árið 1986, og er hún mörgum eflaust enn í fersku minni, en á tólfta þúsund manns sáu sýninguna.

Núna er um að ræða áhrifamikla uppfærslu á þessu mikla meistaraverki óperubókmenntanna, þar sem nútíminn mætir fornri sögu um ástir og hefnd. Dramatíkin er í forgrunni í verkinu, leidd áfram af meistaralegri tónsmíð Verdis. Í Il Trovatore segir frá baráttu sígaunasonarins og trúbadúrsins Manrico og greifans di Luna, sem í raun eru bræður án þess að vita það, um völd og yfirráð en ekki síður ástir hinnar fögru Leonoru. Forn fjandsemi og hefndarhugur móður Manrico, Azucenu, fléttast inn í baráttu bræðranna sem að lokum leiðir til tortímingar og dauða, og endar óperan á hinum dramatísku orðum: Móðir, þín er hefnt! Möguleikar Eldborgar verða nýttir til hins ítrasta til þess að skapa dulúðugt og framandi andrúmsloft sem rímar vel við hinn spennuþrungna söguþráð óperunnar.

Alls verða sex sýningar á Il Trovatore; frumsýning verður laugardagskvöldið 20. október, föstudaginn 26. október, laugardaginn 27. október, sunnudaginn 4. nóvember, laugardaginn 10. nóvember og laugardaginn 17. nóvember.

Í helstu hlutverkum í Il Trovatore eru tenórsöngvarinn Jóhann Friðgeir Valdimarsson í hlutverki Manrico, sópransöngkonan Hulda Björk Garðarsdóttir í hlutverki Leonoru, mezzósópransöngkonurnar Alina Dubik og Elsa Waage sem skipta með sér hlutverki Azucenu, bassasöngvarinn Viðar Gunnarsson í hlutverki Ferrando og hinn virti alþjóðlegi baritónsöngvari Anooshah Golesorkhi í hlutverki Luna greifa.

Annar erlendur tónlistarmaður tekur ennfremur þátt í uppfærslunni að þessu sinni; því bandaríski hljómsveitarstjórinn Carol I. Crawford heldur um tónsprotann í verkinu. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem kona er hljómsveitarstjóri í óperuuppfærslu við Íslensku óperuna. Margverðlaunað einvalalið úr íslenskum leikhúsheimi sér að öðru leyti um listræna stjórn sýningarinnar; leikstjóri er Halldór E. Laxness, leikmyndahöfundur er Gretar Reynisson, búninga hannar Þórunn María Jónsdóttir og lýsingu hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson. Stækkaður kór og hljómsveit Íslensku óperunnar taka ennfremur þátt í verkefninu.