Starfsemi Þjóðleikhússins er að komast á fullt skrið á nýju ári. Á stóra sviðinu eru þrjár sýningar í gangi. Bakkynjur, grískur harmleikur eftir Evrípídes var jólafrumsýning hússins og hefur hún vakið verðskuldaða athygli en verkið er nú sýnt í fyrsta sinn á Íslandi. Ný þýðing Kristjáns Árnasonar, leikstjórn og sviðsetning grískra leikhússnillinga, tónlist Atla Ingólfssonar og dansar Ernu Ómarsdóttur. Þessir þættir ásamt öflugum leik reyndra leikara í bland við rísandi stjörnur sameinast í að gera Bakkynjur að sterkri leikhúsupplifun.
Sitji guðs englar eftir Guðrúnu Helgadóttur halda áfram að svífa á stóra sviðinu en þessi hugljúfa fjölskyldusýning hefur náð til allra sem unna verkum Guðrúnar og sviðsetning Sigurðar Sigurjónssonar á leikgerð Illuga Jökulssonar þykir hafa tekist sérlega vel.

Stórfengleg- grátbroslegur gamanleikur byggður á ótrúlegri ævi söngkonunnar Florence Foster Jenkins heldur áfram á stóra sviðinu.Ólafía Hrönn Jónsdóttir fer á kostum í aðalhlutverkinu dyggilega studd af Erni Árnasyni sem leikur unnusta hennar, Stefáni Halli Stefánssyni í hlutverki undirleikarans og Eddu Arnljótsdóttur sem er kostuleg vinkona. Sýningin fékk fálæti frá gagnrýnendum en góðar undirtektir áhorfenda í allt haust og verður vonandi svo áfram.

patrekur.pngÁ Smíðaverkstæðinu flytur Patrekur 1,5 inn eftir að hafa flakkað um framhaldsskóla á landsbyggðinni og víðar í haust.
Patrekur 1,5 fjallar um tvo karlmenn sem búa saman. Þá dreymir um að verða foreldrar, að ala upp barn saman. Eftir mikla baráttu fá þeir óskina uppfyllta og litli drengurinn birtist. En hann er alls ekki eins og þeir höfðu hugsað sér og heimilislífið kemst í mikið uppnám við komu Patreks. Þetta er bráðfyndið leikrit þar sem tekist er á við fordóma af ýmsu tagi, á frumlegan og skemmtilegan hátt. Þeir Rúnar Freyr Gíslason, Jóhannes Haukur Jóhannesson hafa fengið einróma lof fyrir frammistöðu sína.

Skoppa og Skrítla sem hafa skemmt minnstu börnunum á Leikhúsloftinu í allt haust flytja sig um set á nýju ári og verða til húsa í Kúlunni, nýju sviði Þjóðleikhússins sem áður hét Litla sviðið og þær Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir munu þar áfram taka á móti minnstu leikhúsgestunum. Skoppa og Skrítla er leiksýning fyrir áhorfendur frá níu mánaða aldri og upp úr.

Góða skemmtun í Þjóðleikhúsinu á nýju ári.