Leikfélag Reyðarfjarðar frumsýnir hinn glænýja gamanleik Í hers höndum í Félagslundi á Reyðarfirði 1. júlí næstkomandi. Höfundar eru Gunnar Ragnar Jónsson og Þórður Vilberg Guðmundsson og er þetta þeirra fyrsta verk. Aðeins verða tvær sýningar, sú síðari laugardaginn 2. júlí og hefjast báðar sýningar kl. 21.00. Þetta er annað árið í röð sem að Leikfélag Reyðarfjarðar gerir síðari heimsstyrjöldinni hátt undir höfði með nýju leikverki í tilefni hernámsdagsins sem haldinn er á Reyðarfirði 1. júlí ár hvert.
Í sýningunni fáum við innsýn inn í hvað gerist þegar að 3000 erlendir karlmenn hellast yfir samfélag þar sem að 300 manns búa fyrir. Við fylgjumst með daglegu lífi þorpsbúa og hvernig þeir reyna (með misjöfnum árangri) að fóta sig í hinum nýja veruleika nælonsokka, framandi manna og hnignandi siðferðisástands. Allt með gamansömum tón að sjálfsögðu.
Þegar slíkur fjöldi framandi manna kemur inn í svona lítið samfélag breytist eðlilega margt. Í leikritinu fylgjumst við með samskiptum heimamanna við setuliðið en ekki síður samskiptum heimamanna á milli og mismunandi sýn þeirra á hinn nýja veruleika. Þarna bregður einnig fyrir ýmsum kynlegum kvistum sem hver gerir ástandinu skil með sínum hætti og reyna að fá sem mest út úr því fyrir sig og sína.
Leikritið byggir mikið til á viðtölum sem tekin voru við þá sem lifðu hernámsárin á Reyðarfirði og eru varðveitt á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði en einnig fengu höfundar aðgang að bréfum hermanna sem nýtt verða til þess að gefa innsýn inn í hugarheim þeirra. Skáldaleyfinu er hins vegar óspart beitt til viðbótar við heimildirnar svo að fæst gerðist með nákvæmlega þeim hætti sem þar er líst.
Að sýningunni stendur fjöldi fólks en 15 leikarar eru í sýningunni. Tæknimál eru í höndum Bóasar Inga Jónassonar en um búninga og leikmuni sáu Þuríður Haraldsdóttir, Þrúður Gísladóttir og Guðrún Rúnarsdóttir. Ekki er um eiginlegan leikstjóra að ræða heldur mótaði hópurinn sýninguna í sameiningu.
Hægt verður að tryggja sér miða í forsölu í síma 865-5216 (Gunnar) og 771-9213 (Þórður).
{mos_fb_discuss:2}