Á undanförnum vikum hefur Leikdeild Eflingar í Reykjadal í Þingeyjarsveit æft nýtt íslenskt verk ‚ eftir Hörð Þór Benónýsson. Verkið heitir Í gegnum tíðina og er gamanleikrit með söngvum, þar sem sögð er saga íslenskrar bændafjölskyldu á seinni hluta síðustu aldar c.a. 1950 – 1980. Fjölskyldumeðlimir lenda í hinum ýmsu aðstæðum, fara á síld, lenda í Kananum, upplifa bítlaæðið, fara á bændahátíð o. fl.

Í verkinu kemur fyrir mikill fjöldi persóna, sem meðal annars helgast af því, að leikritið var skrifað með þennan leikhóp í huga og haft að leiðarljósi að allir fengju að spreyta sig. Inn í söguna er fléttað fjölmörgum lögum  frá þessu tímabili, sem vekja efalaust upp ljúfar minningar hjá mörgum.

Hörður er jafnframt leikstjóri  verksins og tónlistarstjóri er Pétur Ingólfsson. Hörður og Pétur hafa áður unnið saman, en þeir settu Djöflaeyjuna á svið á Breiðumýri árið 2008. Auk Péturs annast undirleik þeir Jaan Alavere og Þórgnýr Valþórsson. 32 leikarar  taka þátt í sýningunni, sumir að stíga sín fyrstu skref á sviði en í hópnum eru einnig reynsluboltar sem komið hafa reglulega að leikstarfi á Breiðumýri.  Alls koma rúmlega 50 manns að sýningunni með einum eða öðrum hætti.         

Frumsýning er föstudagskvöldið 9. mars kl 20:30. Í tengslum við sýningar verður leikhúsmatseðill í Dalakofanum á Laugum og verður ýmist hægt að panta mat á undan eða eftir sýningu.

Miðasala er í síma 618-3945 eða á leikdeild@leikdeild.is.

2. sýning 10. mars kl. 16:00
3. sýning 14. mars kl. 21:00
4. sýning 17. mars kl. 16:00
5. sýning 18. mars kl. 16:00
Athugið takmarkaður sýningarfjöldi

Almennt miðaverð:
Fullorðnir: 2.800 kr.
Eldri borgarar: 2.400 kr.
Börn (16 ára og yngri): 1.800 kr.