Leikfélag Akureyrar frumsýndi föstudaginn 13. desember leikritið Hversdagslegt kraftaverk eftir rússneska leikskáldið Évgení Schwarz í leikstjórn landa hans Vladimir Bouchlers og þýðingu Rebekku Þráinsdóttur. Júlíus Júlíusson brá sér bæjarleið til að sjá verkið og hér má sjá hvernig honum líkaði. Hversdagslegt kraftaverk hjá LA
KraftaverkLeikfélag Akureyrar frumsýndi föstudaginn 13. desember leikritið Hversdagslegt kraftaverk eftir rússneska leikskáldið Évgení Schwarz í leikstjórn landa hans Vladimir Bouchlers og þýðingu Rebekku Þráinsdóttur. Um er að ræða frumsýningu verksins í Evrópu.
Söguþráðurinn er í stuttu máli á þá leið að töframaður nokkur hefur breytt birni í ungan mann með þeim álögum að ef prinsessa kyssir hann breytist hann aftur í björn. Auðvitað hittir ungi maðurinn prinsessu og auðvitað fella þau hugi saman. Spurningin er hvort ungi maðurinn þorir að afhjúpa eðli sitt með því að kyssa prinsessuna. Hversdagslegt Kraftaverk er síðasta verk höfundar og af mörgum talið hans besta. Mörg verka Schwarz eru endurgerðir uppúr ævintýrum H.C. Andersen en þekktasta, og til vill dæmigerðasta, verk hana er Drekinn sem varð mjög umdeilt því margir þóttust vita að Drekinn væri tákngervingur Stalíns. Hversdagslegt Kraftaverk er hins vegar ævintýralegur gamanleikur um ástina og er ætlað að höfða jafnt til barna sem fullorðinna. En snúum okkur að sýningunni.
Kraftaverk2Það var eins og það vantaði talsvert upp á kraft, gleði og einbeitingu hjá hluta hópsins á þessari sýningu. Heilt yfir var sýningin býsna skemmtileg en það hefði kannski mátt þétta og stytta leikritið, það virkaði örlítið langdregið á köflum. Ég hefði viljað sjá enn meiri ævintýraljóma í þessari annars skemmtilegu sögu, finna meira fyrir gleðinni og ástinni sem býr í verkinu. Það var aðeins prinsessan, afar vel leikin af Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur, sem virkilega skilaði hlýju og ást til áhorfenda. Að sjálfsögðu var Ívar Örn Sverrisson sem björninn/ungi maðurinn afar ástfanginn og lék ágætlega, en hann var kannski aðeins of mikill töffari. Þau Kolbrún og Ívar náðu sérstaklega góðum samleik í upphafi er þau eru að kynnast og það er óhætt að vænta mikils af þeim í framtíðinni, sérstaklega Ívari.
Kraftaverk3Skúli Gautason lék húsbóndann/galdrakarlinn með afbrigðum vel, skilaði þessu hlutverki nánast óaðfinnanlega og einnig var gaman að Aðalsteini Bergdal. Hlutverk veitingamannsins var dálítið öðruvísi en Aðalsteinn er vanur að glíma við en túlkun hans var þægilega afslöppuð og hann hvíldi vel í hlutverkinu. Þráinn Karlsson skilaði sínu hlutverki ágætlega og var á tíðum mjög skemmtilegur, t.d. er hann elti fiðrildið. Ég hef þó séð Þráin í mörgum skemmtilegri hlutverkum og oft gera betur. Sigurður Karlsson var frábær sem fyrsti ráðherra og gaf sig af krafti í hlutverkið. Laufey Brá Jónsdóttir lék húsfreyjuna, hlutverk sem býður ekki upp á mikil tilþrif, en skilaði því ágætlega. Saga Jónsdóttir, Jón Ingi Hákonarson og Hildigunnur Þráinsdóttir skiluðu öll sínum hlutverkum þokkaleg. Af aukaleikurunum fimm stóð Ívar Örn Björnsson sig vel sem lærlingur veiðimannsins en hin fjögur gerðu einnig ágætlega.
Kraftaverk4Hljóðmynd/tónlist, sem Arnór Vilbergsson sá um, var góð og passaði all vel inn í þessa uppsetningu þó að ég eins og áður sagði hefði viljað hafa meiri ævintýrabrag á uppsetningunni og þar af leiðandi glaðlegri hljóðmynd. Lýsing Ingvars Björnssonar var óaðfinnanleg og mikið um skemmtilegar lausnir og útfærslur. Hrafnhildur Arnardóttir hannaði og sá um búninga og voru þeir almennt góðir, litasamsetningar skemmtilegar og mikið af úthugsuðum smáatriðum sem bættu við sýninguna. Ég hefði þó viljað sjá björninn í einhverju öðru en gallajakka og gallabuxum. Leikmynd Þórarins Blöndal gegndi sínu hlutverki vel, var einföld, allflestir hlutir vel nýttir og nokkrar tækniútfærslur alveg brilljant. Notkun á myndavélum var einnig vel útfærð, gólfið var skemmtilega ferskt en nýta hefði mátt veggina í kring betur.
Í heildina var sýning ágætlega skemmtileg þrátt fyrir fyrrnefna annmarka sem sumir skrifast væntanlega bara á dagsformið. Ég mæli því óhikað með því að Norðlendingar drífi sig með börnin í Samkomuhúsið og eigi þar notalega stund með Leikfélagi Akureyrar