Bandalag íslenskra leikfélaga auglýsir eftir leiksýningu til að sækja um að fara á alþjóðlegu leiklistarhátíðina í Monaco dagana 17.-26. ágúst 2009.

Hátíðahaldarar í Monaco bjóða leikhópi sem telur allt að 10 manns frítt uppihald í 4 daga. Hópurinn má vel vera stærri og stoppa lengur, þá þarf bara að borga eitthvað fyrir það. Allur ferðakostanður er einnig greiddur af þátttakendum sjálfum. Sýningin má ekki vera lengri en 60 mín. og í reglum hátíðarinnar segir; „strongly advised to present predominantly visual performances“.

 

 

IATA (International Amateur Theatre Association) stendur fyrir leiklistarhátíðum í Monaco fjórða hvert ár. Þangað er boðið sýningum alls staðar að úr heiminum og þess gætt að öll aðildarsamböndin innan IATA eigi þar fulltrúa. Ísland tilheyrir NEATA (norður evrópska áhugaleikhúsráðinu) en þaðan eru oftast nokkrar sýningar. Þó að Ísland hafi tryggt sér rétt til að sækja um að koma með sýningu á hátíðina 2009 er ekki gulltryggt að sú sýning verði valin þar inn. Það fer eftir fjölda umsókna frá NEATA-löndunum og gæðum okkar sýningar miðað við hinar að mati sérstakrar valnefndar sem velur endanlega sýningar úr hópi umsækjenda.

Bandalagið skipar valnefnd eftir að umsóknarfrestur rennur út og tilkynnir úrslit vel fyrir 15. september. Allt efni um sýninguna sem verður valin þarf nefnilega að senda til Monaco fyrir 15. september og valnefnd hátíðarinnar mun svo tilkynna um úrslit í nóvember 2008.

Sækja skal um til Bandalags íslenskra leikfélaga fyrir 5. september 2008.

Ekki verður útbúið sérstakt eyðublað, en í umsókn þarf að koma fram nafn félags, leiksýningar og leikstjóra. Myndbandsupptaka þarf að fylgja umsókn og athugið að sýningarlengdin má ekki fara yfir 60 mín.