Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Sá ljóti eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg á Smíðaverkstæðinu þann 5. apríl nk. í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur. Sá ljóti er nýjasta verk Þjóðverjans Mariusar von Mayenburg sem hefur vakið mikla athygli í evrópsku leikhúslífi á undanförnum árum. Verkið er jafnframt fyrsta verk hans sem sviðsett er á Íslandi, en Ríkisútvarpið hefur áður flutt leikrit eftir hann.
 
Við kynnumst Lárusi. Hann er ljótur. Svo ljótur að honum er meinað að fara á ráðstefnu á vegum fyrirtækisins. Sú ákvörðun kemur Lárusi algerlega í opna skjöldu og þegar vinnufélagar hans og eiginkona segjast skilja afstöðu fyrirtækisins fullkomlega tekur hann ákvörðun sem gjörbreytir lífi hans – og útliti.

Sá ljóti er svört kómedía um okkar tíma, bráðsmellin og martraðarkennd í senn. Hér er tekist á við brennandi spurningar um samkeppnisþjóðfélag nútímans og fegurðardýrkunina, jafnframt því sem höfundur veltir upp tilvistarlegum spurningum um það hvað við erum í raun, og hvað greinir okkur frá öðrum manneskjum. Er það í raun og veru fallega fólkið sem lifir besta kynlífinu, hefur mestu völdin og upplifir mestu hamingjuna? Ef það er hægt að breyta andlitinu á fólki, af hverju ætti þá einhver að sætta sig við að vera ófríður? Er nóg að vera „falleg manneskja“, eða þarf maður líka að líta vel út? Er hægt að vera of fallegur? Þetta nýjasta leikrit Mariusar von Mayenburg er frábærlega skrifuð gamansöm ádeila á ímyndarsköpun, yfirborðsmennsku og dómhörku. Leikhópurinn fer hráa og umbúðalausa leið að þessu hárbeitta verki og skapar úr því eftirminnilega sýningu þar sem list leikarans er í fyrirrúmi.

Leikarar í sýningunni eru Dóra Jóhannsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Stefán Hallur Stefánsson og Vignir Rafn Valþórsson, en þau stunduðu öll nám á svipuðum tíma við leiklistardeild Listaháskóla Íslands, og hafa meðal annars starfað saman áður undir merkjum leikfélagsins Vér morðingjar. Leikstjóri er Kristín Eysteinsdóttir, en Sá ljóti er fyrsta leikstjórnarverkefni hennar í Þjóðleikhúsinu. Um leikmynd og búninga sér Stígur Steinþórsson. Hallur Ingólfsson semur tónlist en lýsingu hannar Hörður Ágústsson. Þýðandi verksins er Bjarni Jónsson.

{mos_fb_discuss:2}