Leikfélag Hafnarfjarðar sýnir um þessar mundir spunaverkið Hvar eru jólasveinarnir? Verkið er í þremur þáttum og má sjá á Facebooksíðu LH sem og á YouTube-rás leikfélagsins. Í þriðja þætti fékk LH til liðs við sig félaga sína úr hinum ýmsu leikfélögum víðsvegar að af landinu.
Á tímum samkomubanna og fjarlægðarskyldu getur Leppalúði og allt hans hyski ekki boðið til jólaævintýris í Hellisgerði eins og áður. Núna er allt komið á netið bara, jólasveinaskóli dr. Skrepps er t.d. með fjarnámskeið og búningaverkstæði jólasveinanna búið að skipta sér upp í starfsstöðvar úti í bæ. Er nema von að jólasveinar og önnur tröll verði ringluð á svona skrýtnum tímum, fari í felur og týni jólaskrautinu og sjálfum sér?
Í verkinu kynnumst við henni Ólafíu sem fær þær leiðinlegu fréttir í bréfi frá Stekkjastaur að hann og bræður hans ætli ekki að koma til byggða þetta árið. Fjölskyldan hennar ákveður að taka málin í sínar hendur, finna jólasveinana og sannfæra þá um að koma, því án jólasveina eru engin jól. Þar sem pabbi hennar Ólafíu er enginn annar en Steini spæjó þá hljóta þeir nú að finnast!
Í leitinni að dvalarstað jólasveinanna hittir Steini spæjó fyrir hin ýmsu ættmenni jólasveinanna sem að öllu venjulegu hafa bækistöðvar sínar í Hellisgerði og vísa þau honum áleiðis að takmarkinu, að koma sveinunum til byggða svo Ólafía og allir hinir fái nú gott í sinn skó.