Félagarnir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í hljómsveitinni Hundur í Óskilum voru farnir að gæla við þá hugmynd að setja á svið gríðarstórt sjóv með 20 dönsurum og leikurum í tilefni af 20 ára afmæli sveitarinnar. Þeir neyddust hins vegar til að sníða sér stakk eftir vexti og nú trana þeir engum öðrum fram en sjálfum sér (enn eina ferðina) í glænýju leik- og tónverki sem kallast  Öldin okkar.

Hundur í Óskilum er við sama heygarðshornið og í Sögu þjóðar, en spólar sig að þessu sinni í gegnum 21. öldina – þessi 14 ár sem liðin eru. Hundinum er náttúrlega ekkert íslenskt óviðkomandi; hann gefur sig í tali og tónum að mannlífinu til sjávar og sveita, ræður í gjörðir stjórnmálamanna og spyr allra spurninganna sem brenna í brjóstum leikhúsgesta.

Frábær skemmtun með helstu tvenndarleikurum landsins! Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Höfundur leikmyndar er Axel Hrafnkell Jóhannsson og lýsingin er í höndum Þórodds Ingvarssonar

Sýningin verður frumsýnd í Samkomuhúsinu 31. október.

Okkur þykir þetta verk henta fullkomlega sem kvöldskemmtun með vinnufélögunum og bjóðum kostakjör fyrir smærri og stærri hópa.

Allar nánari upplýsingar er að finna á leikfelag.is. Miðasölunúmerið er 450 1000 en kaupa má staka miða hér