Óhætt er að segja að leikhúsgestir hafi tekið Mary Poppins og Bert vini hennar fagnandi því í kvöld er komið að sýningu númer 100 og uppselt hefur verið á allar sýningar frá upphafi. Mary Poppins er þriðja sýning Leikfélags Reykjavíkur sem fer yfir 50.000 gesti í 117 ára sögu Leikfélagsins (hinar eru Fló á skinni og Sex í sveit). Þegar er búið að framlengja sýningarleyfinu að utan fyrir fyrir Mary Poppins, en það átti að renna út um áramót, og stefnir allt í að sýningin slái nýtt aðsóknarmet áður en yfir lýkur.

Uppfærslan er sú viðamesta og flóknasta sem Borgarleikhúsið hefur nokkru sinni ráðist í – mannmörg og krefjandi dans og söngatriði, hraðar og stórar sviðskiptingar, háskaleg flugatriði og ótal tæknibrellur. Alls eru 50 manns á sviði í Mary Poppins (leikarar, kór, dansarar Íslenska dansflokksins, hljómveit og börn) og mikill fjöldi á bak við tjöldin. Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert. Mary Poppins hefur hlotið fádæma lof gagnrýnenda sem áhorfenda og var tilnefnd til átta grímuverðlauna í vor, m.a. sem sýning ársins.

Allt getur gerst í söngleiknum um Mary Poppins – ef þú leyfir því að gerast! Hér er ekkert venjulegt leikverk á ferðinni; sagan er leiftrandi og sjónarspilinu eru engin takmörk sett. Áhorfendur fylgjast með Mary Poppins lífga upp á heimilislífið í Kirsutrjárunni, breyta grárri Lundúnaborg í litríkt ævintýri þar sem sótarar dansa upp um veggi og loft. Tónlistina þekkja allir og hún birtist hér í nýjum heillandi útsetningum. Dansatriðin í Mary Poppins eru stórglæsileg enda gengur Íslenski dansflokkurinn til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari stórsýningu. Kvikmyndin um Mary Poppins sló rækilega í gegn um allan heim þegar hún var frumsýnd árið 1964 með Julie Andrews í aðalhlutverkinu. Myndin fékk fimm Óskarsverðlaun og er löngu orðin sígild. Það var svo árið 2004 að loks var gerður söngleikur. Hann fékk hreint ótrúlegar viðtökur þegar hann var frumsýndur á West End; hlaut sjö Tony verðlaun, m.a. sem besti söngleikurinn. Síðan hefur Mary Poppins farið sigurför um heiminn og notið mikilla vinsælda.

Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir uppfærslu Borgarleikhússins og Gísli Rúnar Jónsson annast þýðingu á lausu og bundnu máli. Tónlistin úr söngleiknum er komin út á geisladisk en tónlistarstjóri er Agnar Már Magnússon semhann leiðir 11 manna hljómsveit sem spilar í sýningunni. Leikmyndahönnuður er Petr Hloušek, en hann hefur hannað fjölmargar stórsýningar víðsvegar um Evrópu og María Ólafsdóttir hannar búninga. Danshöfundur sýningarinnar er einn heitasti danshöfundur Evrópu, Lee Proud og hefur Íslenski Dansflokkurinn gengið til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari sýningu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert.