Hugleikur hélt sína árlegu jólaskemmtun í Kaffileikhúsinu föstudaginn 13. desember undir heitinu Klundurjól. Var þar leikið og sungið af list eins og venjan er. Útsendari Leiklistarvefs var þar viðstaddur og hér má sjá hvort Hugleikarar komu honum í jólaskap. Hugleikur á síðum buxum

Sú hefð hefur skapast hjá Hugleik að bjóða upp á jóladagskrá í desember með leik og söng. Að þessu sinni var dagskráin þriðji hluti af dagskrárröðinni „Þetta mánaðarlega“ sem hófst í október. Að vissu leyti bar dagskráin þess einnig merki þar sem öllu meiri alvörublær var yfir henni en jólaskemmtunum Hugleiks undanfarin ár. Þessar jólavökur undanfarin ár hafa verið í léttar og afslappaðar og þáttakendur skemmt sér ekki síður en áhorfendur. Það má þó ekki skilja svo að dagskráin hafi ekki verið skemmtileg en yfirbragðið var vissulega annað en áður.

Eins og venjulega var blandað saman leik og tónlist. Tónlistin var blanda af gömlum „standördum“ sem þeir þekkja sem komið hafa á fyrri jólaskemmtanir Hugleiks en einnig komu ný lög við sögu. Þórunn Guðmundsdóttir á bróðurpartinn í tónlistinni og drjúgan hluta af textunum einnig og fer enginn í grafgötur með hæfileika hennar á þeim sviðum. Það fara fá leikfélög í skóna Hugleiks í tónlistarmálum enda var tónlistin hvortveggja vel samin og fagmannlega flutt. Hinsvegar verð ég að játa að ég saknaði léttleikans sem einkennt hefur tónlist Hugleiks hingað til. Nú var fagmennskan í fyrirrúmi og fyrir vikið leið mér á stundum eins og ég væri á tónleikum með stóru téi. Þetta er þó smekksatriði og vafalaust ýmsir sem eru mér ósammála í þessum efnum.

Leikhluti dagskrárinnar voru fjórir einþáttungar sem valdir voru eftir samkeppni innan félagsins. Þrír þeirra sóru sig í þá ætt jólaleikþátta sem ganga út á að brúa bilið milli hinna gömlu hefða og hraða og æðibunugangs nútímans. Sá fjórði var af allt öðrum toga og í mínum huga sá þáttur í dagskránni sem stóð upp úr.

Fyrstur af þáttunum á svið var „Níu nóttum fyrir jól“ eftir Fríðu B. Andersen í leikstjórn Unnar Guttormsdóttur. Sá snerist um þá hugmynd að jólasveinarnir séu útjaskaðir orðnir eftir jólin á þessum nýju tímum hraða og streitu. Hafa mátti gaman af ýmsum atriðum en þátturinn í heild náði ekki á flug. Textinn var í fullmiklum frásagnarstíl og vinna hefði mátt betur úr honum á sviðinu. Fyrir vikið varð hann frekar hægur og „statískur“.

Næst í röðinni var „Ein lítil jólasaga“ eftir Þórunni Guðmundsdóttur og var hann sá þáttanna sem skar sig úr. Hulda Hákonardóttir lék og samkvæmt leikskrá lagði Þorgeir Tryggvason til „sérlega aðstoð og stílisma“. Þessi þáttur er nær því að vera smásaga en leikrit en hún var flutt af þvílíkum glæsibrag að áhorfendum stóð hreint ekki á sama. Innblástur sögunnar virtist vera frá H.C. Andersen en sá ágæti maður hefði sennilega flúið æpandi úr húsinu yfir því sem fram fór. Það er von mín að börnunum sem sátu næst sviðinu hafi orðið svefnsamt á eftir. Frábær „jólasaga“ í snilldarlegum flutningi Huldu.

„Þegar Grýla stal jólunum“ eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur var nokkurskonar seinni tíma söguskýring á ýmsum undarlegum hefðum jólanna. Aðalþemað var sú þróun sem átt hefur sér stað úr gömlu íslensku jólasveinunum yfir í Kóka kóla santíklásinn sem hefur nú tekið við af þeim. Framan af var þátturinn frekar hægur og að því er virtist stefnulaus en náði sér vel á strik um miðbikið og hélt því allt til enda. Ýmsir lítt skiljanlegir þættir jólahaldsins voru skýrðir á skemmtilegan hátt og t.d. tóku áhorfendur bakföll af hlátri þegar loks kom skýring á því afhverju „upp á stól stendur mín kanna“. Leikarar stóðu sig ágætlega og sérstaklega Björn Thoroddsen sem sýndi góða takta í hlutverki Grýlu.

Seinastur í röðinni var „Ó pabbi komdu heim um jólin“ eftir Þorgeir Tryggvason. Sesselja Traustadóttir leikstýrði Jóhanni Haukssyni og Hrefnu Friðriksdóttur sem jólasveininum og eiginkonu hans. Hér var enn verið að máta mýtuna við nútímann og tókst það nokkuð vel. Jóhann var mæðulegur sem eiginmaðurinn sem ekki sést á heimilinu 351 dag á ári og Hrefna var sannfærandi sem hin skiljanlega frústreraða eiginkona. Ágætur þáttur en hefði að ósekju mátt leika sér aðeins meira með grunnhugmyndina.

Dagskráröðin „Þetta mánaðarlega“ hefur nú runnið sitt skeið á enda. Hún hefur verið skemmtilegur partur af þessu leiklistarhausti á höfðuborgarsvæðinu og fætt af sér marga góða leiksýninguna. Haf þökk fyrir Hugleikur.

Hörður Sigurðarson