Fimm einþáttungar frumsýndir um helgina.

Leikfélagið Hugleikur verður með verður með mánaðarlegar skemmtidagskrár í Þjóðleikhúskjallaranum í vetur. Fyrsta dagskráin verður föstudag og laugardag næstkomandi og hefst kl. 21, en húsið er opnað kl. 20.30.

Hugleikur hefur undanfarin ár lagt áherslu á uppsetningu frumsaminna einþáttunga og dagskráin einkennist af því.

Fimm einþáttungar verða frumfluttir í októberdagskránni. Þeir eru:
Hefur einhver sagt þér hvað þú ert líkur Robert Redford? eftir Jón Guðmundsson, Stefnumót eftir Þórunni Guðmundsdóttur, Helgin eftir Hrefnu Friðriksdóttur og tveir þættir eftir Nínu B. Jónsdóttur, Snemma beygist krókurinn og Snyrting.

Efni þáttanna er fjölbreytt, en við sögu koma m.a. óframfærinn sundlaugarvörður, upprennandi stórglæpamaður og lögfræðingur á blindu stefnumóti. Efnistökin spanna  líka allan skalann frá grínaktugum ýkjustíl yfir í römmustu alvöru.

Höfundar og leikstjórar eru úr röðum félagsmanna, en Hugleikur hefur sem kunnugt er sérhæft sig í að sýna verk eftir innanfélagsmenn.

Almennt miðaverð er 1.000 kr. og miðapantanir eru í síma 551 2525 og á midasala@hugleikur.is.

MYND:
Leikarar í Snemma beygist krókurinn. Ljósmynd: Björn Margeir.