Menntamálaráðherra veitti í gær leikfélaginu Hugleik sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Formaður félagsins tók við viðurkenningunni við athöfn í Hjallaskóla í Kópavogi í dag. Viðurkenningin var veitt í tengslum við verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sem eru veittþann 16. nóvember, ár hvert. Þau voru nú veitt í 11. sinn. Áður hafa 19 aðilar fengið sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning kemur í hlut leiklistargeirans. Leikfélagið Hugleikur hefur starfað í Reykjavík frá árinu 1984 og hefur alla jafna sett á svið frumsamin verk eftir meðlimi leikfélagsins.  Leikrit í fullri lengd sem félagið hefur frumsýnt eru orðin vel á þriðja tuginn auk þess sem innan félagsins hafa verið sýnd um 60 styttri verk. Mikilvægur þráður í vinnu félagsins hefur frá upphafi verið endurvinnsla á menningararfinum; þjóðsögum fornkvæðum og Íslendingasögum, auk verka nafnkunnra skálda frá síðari öldum.

tungan2.pngUndanfarin ár hefur félagið síðan verið iðið við að senda sýningar á leiklistarhátíðir erlendis og jafnan leikið á íslensku á þeim. Því má segja að Hugleikur hafi verið iðinn við að bera hróður íslenskrar tungu víða um Evrópu, meira að segja austur fyrir Volgu síðasta vor.

Starfsemi félagsins hefur undanfarin ár vaxið fiskur um hrygg og nú er svo komið að félagið hefur undanfarin leikár sett upp tvö til þrjú verk í fullri lengd og eitthvað af styttri verkum ár hvert. Nú er hafinn undirbúningur að jóladagskrá Hugleiks sem verður flutt í Þjóðleikhúskjallaranum 5. og 7. desember. Þar verður boðið upp á fjóra leikþætti auk jólatónlistar eftir félagsmenn ásamt fleiru. Eftir áramót verður síðan hafin vinna við uppsetningu á verkinu Epli og Eikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur, auk þess sem stefnt er að því að halda tvær einþáttungadagskrár til viðbótar og eina tónlistardagskrá í Þjóðleikhúskjallaranum í vetur.