Leikfélagið Hugleikur frumsýnir þann 20. apríl kl. 20.00 Hráskinnu, nýtt íslenskt leikrit með söngvum. Höfundar eru fjórir, Ármann Guðmundsson, Ásta Gísladóttir, Sigríður Bára Steinþórsdóttir og Þorgeir Tryggvason en leikstjórn er í höndum Rúnars Guðbrandssonar. Sýnt er í Hugleikhúsinu Langholtsvegi 109 (Fóstbræðrahúsinu, gengið inn baka til) en það er nýtt leikhús í eigu leikfélagsins.

Hráskinna er verk skrifað í hinum svokallaða „hugleikska“ anda sem var ríkjandi í verkum leikfélagsins á fyrstu árum þess. Þar fer saman íslensk fortíð, rómantík og galgopalegur húmor. Einnig er barátta góðs og ills eitt af meginþemum verksins þótt ekki sé jafn klippt og skorið og oft áður hvoru megin línunnar persónur standa. Eins og svo oft í hugleikskum verkum bresta persónur í söng í tíma og ótíma og er tónlistin ýmist samin í hópvinnu leikhópsins eða af einstökum aðkomendum sýningarinnar og voru Þorgeir Tryggvason og Loftur S. Loftsson þar afkastamestir á meðal jafningja. Flesta söngtexta semur Sævar Sigurgeirsson en einnig eiga Þorgeir og Ásta Gísladóttir þátt í söngtextasmíð.

Á biskupssetrinu á Skálum bruggar biskupsfrúin Guðrún sveitungum sínum launráð en hún og hennar seníli eiginmaður, Guðmundur biskup, hyggjast sölsa undir sig allt land í sveitinni. Sérstakur þyrnir í augum þeirra eru nágrannarnir á býlinu Féþúfu en þar býr guðleysinginn og vísindamaðurinn Guðsteingrímur ásamt guðhræddri móður sinni en faðir hans lést  skömmu áður á vofeiflegan hátt. Hann hafði fyrir andlát sitt komist yfir Hráskinnu, dularfullt rit sem hann trúði að mundi opinbera honum gullgerðarlistina sem var honum mjög hugleikin en bókin er rituð á dulmáli sem enginn virðist geta lesið. Þegar Guðsteingrímur fer að eiga í forboðnu ástarsambandi við Skarlottu, vinnukonu á biskupssetrinu, átta þau sig á að ekki er allt með feldu þar. Á sama tíma kemur Guðmann, sonur biskupshjónanna óvænt heim frá námi í Svartaskóla og virðist ekki hafa greitt skólagjöldin að fullu. Inn í þetta blandast svo svæsinn draugagangur, galdrar og alls kyns djöfulgangur sem stefnir sálarlífi heillar sveitar í voða.

Takmarkaður áhorfendafjöldi kemst á hverja sýningu og sýningartímabilið verður mjög snarpt. Miðapantanir eru á hugleikur.is og miðaverð er kr. 2500.