Laugardaginn 16. janúar kl. 20.00 frumsýnir leikfélagið Hugleikur fyrstu leiksýninginu sína á nýju ári. Nefnist hún Hannyrðir og hagleiksmenn og er sýnd í húsnæði Hugleiks á Eyjarslóð 9. Höfundur er Sigurður H. Pálsson, en leikstjórn er í höndum Guðmundar Erlingssonar. Athygli skal vakin á því að einungis eru fyrirhugaðar fimm sýningar á Hannyrðum og hagleiksmönnum.

Í verkinu segir frá hópi karlmanna sem koma öðru hverju saman og fást í sameiningu við einhvers konar handverk, sitt af hverju tagi. Örlögin leika þá nokkuð grátt, og skörð eru höggvin í hópinn, en þeir taka því sem öðru af stakasta æðruleysi og þó fyrst og fremst karlmennsku. Myndum er einnig brugðið upp af samskiptum þeirra við hitt kynið, og áður en yfir lýkur þurfa félagarnir að takast á við spurningar um lífið, dauðann og almættið.

Rætur leikritsins liggja í stuttverkinu Hannyrðir, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúskjallaranum í mars 2006. Vinsældir þess leiddu ef sér tvo þætti í viðbót um sama karlahópinn, annars vegar Skurð og hins vegar Þriðja daginn. Í Hannyrðum og hagleiksmönnum eru sýndir þessir þrír þættir svo og tveir aðrir sem ekki hafa komið áður fyrir augu almennings, auk nokkurra styttri atriða sem einnig eru ný af nálinni. Þættirnir kallast á og mynda þegar upp er staðið nokkurs konar heild.

Með hlutverk í sýningunni fara Arnar Þorvarðarson, Ármann Guðmundsson, Eggert Hilmarsson, Einar Þór Einarsson, Flosi Þorgeirsson, Friðjón Magnússon, Hjalti Stefán Kristjánsson, Loftur S. Loftsson, Sigurður H. Pálsson, Svanlaug Jóhannsdóttir og
V. Kári Heiðdal.

Sýningar verða sem hér segir:

Laugardaginn 16. janúar kl. 20:00 – frumsýning
Mánudaginn 18. janúar kl. 20:00
Fimmtudaginn 21. janúar kl. 20:00
Föstudaginn 22. janúar kl. 20:00
Laugardaginn 23. janúar kl. 20:00

Miðapöntun fer fram á vef Hugleiks (www.hugleikur.is). Vakin er athygli á því að sætaframboð er takmarkað. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000. kr. fyrir námsmenn og eldri borgara. Ókeypis er fyrir börn yngri en 14 ára í fylgd með fullorðnum.

{mos_fb_discuss:2}