Næsta miðvikudag. 20. apríl, mun Leikfélagið Hugleikur frumsýna Feigð, nýtt verk með söng-, hryllings-, drama- og gamanleikjaívafi eftir Ármann Guðmundsson. Höfundur er jafnframt leikstjóri og alls koma 15 leikarar fyrir í verkinu.

Á Skollakoti í íslenskri 19. aldar sveit býr nískur maður að nafni Greipur. Hann er nýkvæntur hinni ungu og fögru Sesselju sem rennir því miður hýru augu til hins lánlausa og harðgifta Þiðriks. Líftími hveitibrauðsdaganna reynist því ekki langur né heldur samsveitunga þeirra, sem láta græðgi, öfund og afbrýðisemi hlaupa með sig í gönur. Nóg er af feigðinni og alltaf kemur meira.

Feigð er 42. verkið í fullri lengd sem Leikfélagið Hugleikur frumsýnir en verkin eru alltaf skrifuð af félagsmönnum og sækja gjarnan í sögu Íslands og þjóðararf. Ármann Guðmundsson hefur áður skrifað fimm verk fyrir Hugleik í hópi annarra höfunda, sem og mörg styttri verk, en þetta er í fyrsta sinn sem Hugleikur setur upp verk eftir hann einan og jafnframt í fyrsta sinn sem Ármann leikstýrir verki í fullri lengd fyrir Hugleik. Ármann hefur annars skrifað ótal önnur verk, þ.á.m. Klaufa og kóngsdætur, með þeim Þorgeiri Tryggvasyni og Sævar Sigurgeirssyni, en það hlaut Grímuverðlaunin árið 2005 sem besta barnaleikritið. Ármann Guðmundsson er annars þekktastur fyrir að vera einn níu meðlima Ljótu hálfvitanna.

Sýningar fara fram í sal í Kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku, við Rafstöðvarveg.

Frumsýning – 20. apríl kl. 20.00
2. sýning – 24. apríl kl. 20.00
3. sýning – 26. apríl kl. 20.00
4. sýning – 29. apríl kl. 20.00
5. sýning – 1. maí kl. 20.00
6. sýning – 5. maí kl. 20.00

Miðasala fer fram á hugleikur.is