Föstudaginn 28. mars frumsýnir Leikfélagið Hugleikur leikritið 39½ viku eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Leikstjórar eru Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam og Sigurður H. Pálsson.

39½ vika er farsakenndur gamanleikur sem snýst að verulegu leyti um barneignir og sauðfjárrækt. Sveitapilturinn Valur fær afnot af skrifstofu frænku sinnar, sem starfar sem félagsráðgjafi á kvennadeild sjúkrahúss. Valur er að leggja lokahönd á lokaritgerð sína um ættir og örlög skagfirsku sauðkindarinnar. Vera hans á skrifstofunni leiðir til hvers konar misskilnings, eins og vera ber í góðum gamanleik, auk þess sem ýmis annar ruglingur og uppákomur flækir málin enn frekar. Þá er hefðbundnum kynhlutverkum á ýmsan hátt gefið langt nef.

Hrefna Friðriksdóttir lék sitt fyrsta hlutverk með Hugleik árið 1997. Hún hefur skrifað fjölmörg leikverk sem flest hafa verið sett upp af Hugleik. Leikrit hennar Memento mori var sett upp í samvinnu Hugleiks og Leikfélags Kópavogs árið 2004 og var farið með það í leikferðir til Færeyja og Suður-Kóreu. Leikritið Bingó í uppsetningu sömu leikfélaga var sýnt vorið 2007 og er á leiðinni á leiklistarhátíð NEATA í Riga í Lettlandi í ágúst 2008.

Leikstjórarnir Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam og Sigurður H. Pálsson hafa öll verið virk í starfi Hugleiks síðastliðin 5-10 ár, og hafa sitt á hvað leikið, skrifað og leikstýrt.

Hugleikur var stofnaður árið 1984 og hefur um árabil verið einn virkasti áhugaleikhópur landsins. Hann hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin eru öll samin af félagsmönnum. Umfjöllunarefni leikritanna eru alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnararfinum, í sögu þjóðarinnar og gullaldarbókmenntunum, en viðfangsefni samtímans hafa á umliðnum misserum fengið aukið vægi. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins.

Hugleikur hlaut sérstaka viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember árið 2006 fyrir stuðning við íslenska tungu. Það sama ár gerði Reykjavíkurborg þriggja ára samstarfssamning við leikfélagið.

Sýningin er tæpar tvær klukkustundir að lengd, með hléi. Sýnt er í Möguleikhúsinu við Hlemm. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig er boðið upp á hópafslátt fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Sérstök athygli er vakin á því að þungaðar konur fá ókeypis inn í fylgd með maka. Sýningaáætlun og miðapantanir eru á vef félagsins: www.hugleikur.is.

{mos_fb_discuss:2}