Þá líður að því að vinnan við seinni stóru uppfærslu Hugleiks á leikárinu, 39½ viku eftir Hrefnu Friðriksdóttur, fari af stað. Leikstjórn verður í höndum Ástu Gísladóttur, Júlíu Hannam og Sigurðar H. Pálssonar.

Opnir samlestrar verða í húsnæði félagsins að Eyjarslóð 9 fimmtudagskvöldið 10/1 kl. 20 og laugardaginn 12/1 kl. 15. Allir sem hafa áhuga á að koma nálægt sýningunni, hvort sem er sem leikarar, tæknimenn, tónlistarmenn eða annað, eru eindregið hvattir til að láta sjá sig að minnsta kosti á öðrum samlestrinum, helst báðum. Þeir sem eiga þessi ekki nokkurn kost að mæta, en hafa samt hug á því að koma að sýningunni, eru beðnir að hafa samband við stjórn á hugleikur@hugleikur.is og láta vita hvað þeir hafa áhuga á að gera. Þess má geta að í leikritinu eru alls 13 hlutverk, fyrir fólk á öllum aldri
og báðum kynjum.

Stefnt er að frumsýningu 19. mars, miðvikudaginn fyrir páska. Gera má ráð fyrir að æfingar hefjist mjög fljótlega eftir samlestra og standi nokkuð stíft allt fram að frumsýningu. Að líkindum verður sýnt 10-12 sinnum, og sýningum lokið fyrir apríllok.

Föstudagskvöldið 11/1 verður svo haldinn hinn árlegi jólafundur félagsins. Eins og venjulega er hann ekki haldinn fyrr en að jólunum loknum, og á dagskrá fundarins er fátt annað en önnur mál, sem fela í sér tónlistaratriði og almenna skemmtan. Þó verður tilkynnt um sigurvegara í jólakortakeppni Hugleiks þetta árið. Húsið opnar klukkan
hálfníu, en fundurinn hefst kl. 21. Snakk og smákökur í boði félagsins, en drykkjarföng af öllu tagi eru á ábyrgð fundarmanna.

 

{mos_fb_discuss:2}