Hið árlega fjárlagafrumvarp var kynnt á dögunum. Eins og venjulega var látið að því liggja að nú væri kaupmáttaraukning í þjóðfélaginu og smjör drypi af nánast hverju strái, en þó verða menn að passa sig á þenslunni. Einhverra hluta vegna kemur það meðal annars í hlut hins fjársvelta leikhúsgeira að halda aftur af henni.

Aðildarfélög Bandalags íslenskra leikfélaga eru nú 63 talsins. Á síðasta ári settu þau upp, samtals, yfir fimmtíu leiksýningar og stóðu fyrir um tuttugu námskeiðum fyrir alla aldurshópa um allt land. Víða eru leikfélögin snar þáttur menningarstarfsemin byggðarlaganna. Og á hátíðlegum stundum er það gjarnan haft á orði að menningarstarfsemi sé mikilvægur þáttur í því að halda íbúum í hinum dreifðari byggðum.

Okkur hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga varð því nokkuð hverft við þegar í fjárlagafrumvarpi næsta árs var gert ráð fyrir 400.000 króna skerðingu á styrkveitingum til þessarar starfsemi, sem fyrir var ljóst að er allt of lág.

Hversu mikils virði þykir ráðamönnum þjóðarinnar þessi hluti menningarstarfseminnar? Í fyrra töldu menn að 18,2 milljónir ættu að duga. Var það hækkun frá árinu áður, sú fyrsta frá árinu 2000. Þegar sá pottur hafði úthlutast á sýningar varð útkoman styrkur upp á kr. 308.341 á hverja sýningu í fullri lengd. (Útlhutunarreglur miða við að full lengd sé 90 mínútur.) Til samanburðar má nefna að meðallaun leikstjóra hjá áhugaleikfélögum síðasta ár voru kr. 550.000. Við allar sýningar er síðan einhver annar kostnaður. Menn þurfa gjarnan að borga húsnæði dýrum dómum, auk kostnaðar við umgjarðir sýninga, sem alltaf kosta eitthvað, þó reynt sé að stilla slíku í hóf.

Aðsókn á þessa viðburði er gjarnan mjög góð, sérstaklega ef miðað er við íbúatölu byggðarlagsins. En sú höfðatala er víða smá. Af þessu má ljóst vera að leikfélög í hinum dreifðari byggðum standa alls ekki undir kostnaði við leiksýningar eða námskeiðahald, þrátt fyrir að næstum allt starf félaganna sé unnið í sjálfboðavinnu. Félög í stærri byggðarlögum, sem gjarnan eru í samkeppni við aðra menningarstarfsemi á svæðinu, berjast einnig í bökkum. Þó svo að þau séu ekki ein um að halda uppi menningarstarfsemi á sínum svæðum hafa þau þó mjög mikilvæga sérstöðu. Þetta eru opin leikhús þar sem allt áhugafólk um leiklist getur komið inn og reynt fyrir sér í sköpun á vettvangi leiklistar.

Hvernig væri nú að stjórnmálamenn sem á hátíðlegum stundum tala fjálglega um menningarstarfsemi á landsbyggðinni og annars staðar færu nú að standa við stóryrðin og láti verkin tala? Nær væri að þetta framlag til áhugaleiklistar  í landinu væri stórhækkað og einmitt núna í góðærinu.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir
Ritari skrifstofu Bandalags íslenskra leikfélaga