Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga hefur ráðið Hörð Sigurðarson sem framkvæmdastjóra frá 1. janúar 2019. Hörður er Bandalagsfólki að góðu kunnur. Hann sat í varastjórn BÍL á árunum 1996-1998 og í aðalstjórn 1998-2006 og 2008-2010. Hann starfaði einnig í nefnd til undirbúnings Leiklistarvefsins 2002 og hefur verið Lénsherra (umsjónarmaður) hans frá upphafi til dagsins í dag, ásamt því að skrifa fyrir hann greinar og gagnrýni. Hörður var í undirbúningsnefnd NEATA hátíðarinnar á Akureyri 2010, hann var einnig starfsmaður hennar og stýrði þar m.a. gagnrýnifundum.

Hörður hefur verið virkur félagi í Leikfélagi Kópavogs frá 1985 og hefur starfað nær óslitið með félaginu síðan í nær öllum hugsanlegum hlutverkum. Hann hefur einnig leikstýrt víða um land og sótt fjölmargar leiklistarhátíðir hérlendis sem erlendis.
Hörður hefur starfað  hjá Hugviti hf./GoPro Ltd síðan 2001, lengst af sem stjórnandi hugbúnaðarprófana og -skjölunar.

Hörður tekur við af Vilborgu Á. Valgarðsdóttur sem lætur af störfum nú um áramótin en hún hefur gegnt stöðunni frá 1993.

Á meðfylgjandi mynd er Hörður með formanni Bandalagsins Guðfinnu Gunnarsdóttur.