Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Hleyptu þeim rétta inn fimmtudaginn 25. febrúar nk. Unglingsstrákurinn Óskar er einmana og vinalaus, og lagður í gróft einelti í skóla. Þegar hin dularfulla Elí flytur inn í íbúðina við hliðina á honum, þar sem hann býr einn með móður sinni, umturnast tilvera hans.

Þegar undarlegir og óhugnanlegir atburðir fara að eiga sér stað á svæðinu, áttar Óskar sig smám saman á því hvert leyndarmál Elí er. Hún er vampíra, sem verður að nærast á blóði fólks til að komast af. En hún er líka einstaklingur sem er einmana og utangarðs, rétt eins og Óskar sjálfur. Smám saman þróast á milli Óskars og Elís vinátta sem hvorugt þeirra átti von á eða gat látið sig dreyma um.

Hvað myndir þú taka til bragðs ef nýi nágranninn þinn væri vampíra?

Leikritið Hleyptu þeim rétta inn er byggt á metsölubók og kvikmynd sænska rithöfundarins Johns Ajvides Lindqvists. Sænska kvikmyndin hefur notið mikillar hylli og var endurgerð í Hollywood undir nafninu Let Me In. Leikritið Let the Right One In hefur verið sýnt við miklar vinsældir í Royal Court leikhúsinu í London, Skoska þjóðleikhúsinu, St. Ann’s Warehouse í New York og á Norðurlöndunum.

Nánari upplýsingar.

Miðasala.