Þjóðleikhúsið frumsýnir nýtt leikrit eftir Eric-Emmanuel Schmitt, Hjónabandsglæpi, í Kassanum 18. apríl. n.k

Hjónabandsglæpir er nýtt leikrit úr smiðju Eric-Emmanuel Schmitt, en leikrit hans Abel Snorko býr einn og Gesturinn hafa notið mikilla vinsælda meðal íslenskra áhorfenda.
Í Hjónabandsglæpum tekst höfundur á óvæginn og óvæntan hátt við ástina, hjónabandið og samskipti kynjanna. Í verkinu blasa innviðir hjónabandsins við okkur og ýmsar skuggahliðar þess koma í ljós, en jafnframt tekst höfundurinn á áhugaverðan hátt við löngun mannsins til að láta ástarsamband vara.

 

Hilmir Snær Guðnason og Elva Ósk Ólafsdóttir fara með hlutverk Róberts og Elísabetar sem hafa búið saman í fimmtán ár. Róbert glímir við minnisleysi eftir höfuðhögg. Þegar hann reynir að endurheimta minnið upphefjast óumflýjanleg átök um sannleikann í hjónabandi þeirra.

Leikstjóri sýningarinnar er Edda Heiðrún Backman, höfundur leikmyndar og búninga er Jón Axel Björnsson, tónlist semur Óskar Guðjónsson, lýsingu hannar Lárus Björnsson og þýðandi er Kristján Þórður Hrafnsson.

Eric-Emmanuel Schmitt fæddist í Frakklandi árið 1960. Hann útskrifaðist frá l'Ecole Normale Supérieure og lauk doktorsprófi í heimspeki. Hann sló í gegn sem leikskáld með leikritinu Gestinum sem hefur verið leikið í fjölmörgum uppsetningum víða um heim og var sýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Þíbylju árið 2002. Fyrsta leikrit hans sem sýnt var á Íslandi var Abel Snorko býr einn, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 1998 við frábærar undirtektir.

Sýningin er hluti af frönsku menningarhátíðinni “Pourquoi Pas – Franskt vor á Íslandi” sem Þjóðleikhúsið tekur þátt í með ýmsum hætti, til að efla tengsl á milli íslenskra og franskra leikhúslistamanna, og hleypa spennandi straumum í franskri leiklist til landsins.

{mos_fb_discuss:2}