Gói og Þröstur eru góðkunningjar barnanna og hafa áður heillað þau með Góa og Ævintýrunum (Eldfærunum og Baunagrasinu en báðar hlutu tilnefningar á Grímunni sem barnasýningar ársins). Það ætti því enginn að láta þetta nýja jólaævintýri úr smiðju töframannanna Góa og Þrastar fram hjá sér fara. Sýningar alla laugardaga og sunnudaga fram til jóla og einnig valda fimmtudags og föstudagseftirmiddaga.
Stebbi er sex ára og er nýbyrjaður í skóla. Foreldrar hans eru alltaf að vinna og hafa engan tíma fyrir neitt nema vinnuna. Þau eru ekki búin að skreyta neitt og jólin handan við hornið. Eitt kvöldið heyrir Stebbi að þau eru að rífast, þau tala um að það sé ekkert jólalegt og að það vanti allan jólaanda á heimilið. Því fer Stebbi að velta fyrir sér hvar hinn sanni jólaandi sé. Uppáhaldsleikfang Stebba leggur upp í hættulegan leiðangur eina nóttina til að leita að hinum sanna jólaanda fyrir besta vin sinn. Hvar er hinn sanni jólaandi? Það kemur í ljós í Borgarleikhúsinu í desember.
Hinn sanni jólaandi er saga eftir Guðjón Davíð Karlsson. Guðjón Davíð hefur að vanda fengið Þröst Leó til liðs við sig en þeir hafa áður opnað augu barnanna fyrir töfraheimi leikhússins í einlægum og hugvitssömum uppsetningum á ævintýrunum um Eldfærin og Baunagrasið. Báðar sýningar fengu afburðarviðtökur og áhorfenda og gagnrýnenda og tilnefningu sem barnasýning ársins á Grímunni 2011 og 2012.